19 skjálftar stærri en 3 við Fagradalsfjall

20.07.2020 - 09:38
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands
19 skjálftar, stærri en 3, hafa mælst við Fagradalsfjall síðan í gærkvöld þegar skjálfti upp á 5 varð skömmu fyrir miðnætti. Tvær skjálftar yfir 4 hafa mælst í morgun; annar reyndist 4,6 að stærð en hinn 4,3.

Skjálftinn í gærkvöld fannst víða, meðal annars á höfuðborgarsvæðinu, Vík og í Borgarnesi.  Grjóthrun varð í Festarfjalli sem er um 6 kílómetra suðvestur af upptökum skjálftans. Eftirskjálftarnir í morgun, sem voru býsna snarpir, fundust einnig víða á Suðvesturhorninu.

Bjarki Kaldalón Friis, náttúruvásérfræðingur á Veðurstofu Íslands, sagði við fréttastofu í morgun að þetta væri partur af hrinu sem hófst í febrúar. Hún sé að teygja sig lengra austur og það skýri hvers vegna íbúar á höfuðborgarsvæðinu fundu skjálftana betur.

Engin merki eru um gosóróa en eftir stóra skjálfta má búast við áframhaldandi virkni eitthvað fram eftir degi. „Það verður ekkert rólegt í dag,“ sagði Bjarki. 

Fréttastofa ræddi í morgun við Otta Rafn Sigmarsson sem sagði allt hafa skolfið í skjálftanum í gærkvöld.  Ekkert hafi dottið úr hillum heldur hafi glamrað í sömu hlutunum og venjulega. „Það bjargar einhverju að það er langt á milli hrinanna en þetta er búið að vera býsna mikið núna.“

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi