Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Talsverð rigning eða hvassviðri fyrir austan

19.07.2020 - 07:58
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofan
Útlit er fyrir talsverða rigningu á Austurlandi fram undir hádegi og með henni aukið afrennsli og vatnavexti í ám og lækjum sem eykur líkur á skriðuföllum og grjóthruni úr hlíðum. Á Suðausturlandi er útlit fyrir strekkingsvind eða allhvassa norðvestanátt til hádegis og fram á seinni part dags á Austfjörðum. Vindur getur farið yfir 25 metra á sekúndu sums staðar og verið hættulegur bílum sem taka á sig mikinn vind. Gular viðvaranir eru í gildi á öllum þessum stöðum.

Enn er hætta á vatnavöxtum og skriðuföllum á Tröllaskaga. Þar er varað sérstaklega við auknum líkum á grjóthruni og skriðuföllum. Að auki er enn mikið vatn í lækjum og ám, sérstaklega á Vestfjörðum og Ströndum eftir úrkomu undanfarna sólarhringa. 

Í nótt stytti upp á Norðvesturlandi og með morgninum styttir upp Norðaustanlands. Veðurfræðingar benda á að það tekur vatnið einhvern tíma að skila sér til sjávar. Meðal það gerist eykst álagið á fráveitukerfum. Varasamir vindstrengir eru enn undir Vatnajökli og syðst á Austfjörðum en líklega dregur úr þeim um hádegi. Strekkings norðvestanátt verður fyrir austan í allan dag, en mun hægari vestantil á landinu. Það verður fremur svalt Norðaustanlands í dag og á morgun, en bjartara og hlýrra sunnan- og vestantil.

Næsta vika lítur vel út samkvæmt veðurspánni, hægir vindar, milt veður og úrkomulítið, en í lok vikunnar er útlit fyrir norðaustanátt og kólnandi veður með heldur meiri úrkomu.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV