Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stefnt að samvinnu fjarskiptafyrirtækja um 5G

19.07.2020 - 20:54
Stefnt er að aukinni samvinnu fjarskiptafyrirtækja við uppbyggingu innviða fyrir fimmtu kynslóð farnets. Samkeppniseftirlitið er með samstarfið til skoðunar.

Fimmta kynslóð farnetsins 5G krefst þéttofnara nets símsenda en fyrri kynslóðir. Því er útlit fyrir að það verði mun dýrara fyrir íslensku símafyrirtækin að byggja upp nýtt kerfi en áður.

Nova hefur þegar hafið prófanir á nýja kerfinu og hin félögin eru að undirbúa sig.

Síminn, Nova og Vodafone skrifuðu öll undir samstarfsyfirlýsingu í vetur um að standa saman að uppbyggingu eins 5G-kerfis í stað þriggja. Fyrirtækin hafa áður starfað saman að uppbyggingu farneta en í nýju regluverki hér á landi er opnað á meira samstarf.

Þorleifur Jónasson, forstöðumaður hjá Póst- og fjarskiptastofnun segir nauðsynlegt að horfa aukins samstarfs um uppbyggingu í 5G. „Því það verður mjög dýrt að byggja 5G upp,“ segir hann og kveður það ekki síst vegna þeirra krafa sem gerðar verða til 5G.

Uppbygging á einu sameiginlegu kerfi í stað þriggja mun skila sér í betra verði til neytenda. 5G-kerfið er dýrara, ekki síst vegna þess að það þarf fleiri senda.

Heiðar Guðjónsson, forstjóri Vodafone, segir þetta vera í takt við tímann. „Að vera samfélagslega ábyrg, minnka sóun og nýta betur þá innviði sem eru til staðar,“ segir hann.

Búið er að úthluta 5G-tíðnisviðum og skilgreina samstarfsgrundvöll fyrirtækjanna sem Samkeppniseftirlitið hefur nú til skoðunar. Niðurstöðu er að vænta síðar í sumar.