Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sjálfsprottnar útihátíðir á tjaldsvæðum áhyggjuefni

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Tómas Einarsson - RÚV
Tryggvi Marinósson, framkvæmdastjóri Hamra, útilífsmiðstöðvar skáta á Akureyri, segir að óformlegar útihátíðir á tjaldsvæðum um verslunarmannahelgina séu áhyggjuefni. Fleiri hafa verið á tjaldsvæðunum fyrir norðan, nú þegar Íslendingar gista þar, en á sama tíma í fyrra þegar meirihluti gesta var útlendingar.    

Mun fleiri tjaldbúar en í fyrra

Útilífsmiðstöðin rekur Hamra sem er eitt stærsta tjaldsvæði landsins og einnig litla tjaldstæðið við Þórunnarstræti á Akureyri. Tryggvi segir að frá áramótum hafi gistinætur þar verið tólf til þrettán þúsund.

„Miðað við til dæmis árið í fyrra þá erum við með 20,7 prósent fleiri gistinætur heldur en á sama tíma í fyrra frá áramótum. Þetta eru allt saman Íslendingar, útlendingunum hefur fækkað um 96,9 prósent á milli ára.“ 

Aðeins sé farið að bera á erlendum gestum aftur. Í venjulegu ári eru þeir í kringum 30 prósent.  

„Þannig að Íslendingarnir gera bæði að fylla það skarð og aukningin er yfir 20% þar fyrir utan.“

Íslendingar allir með stórar græur

Þrisvar hafi þurft að vísa frá fólki sem kom að nóttu til. Tjaldsvæðið Hamrar hafi tekið tvöþúsund manns og fjögurhundruð gátu gist á minna tjaldsvæðinu við Þórunnarstræti. Mun færri komast að núna.  

„Íslendingarnir eru allir með svo stórar græur bæði hjólhýsi og svo tjöld við. Þannig að þetta eru kannski 60 fermetrar á fjölskyldu.“ 

Óformlegar útihátíðir skapa smithættu

Tjaldsvæðunum er skipt í sóttvarnahólf með að hámarki fimmhundruð manns í hverju hólfi. Ekki á að vera samgangur á milli hólfa. Engar útihátíðar verða um verslunarmannahelgina. Á upplýsingafundi Almannavarna var rætt um að á stórum tjaldsvæðum gætu sprottið upp óformlegar útihátíðir sem gætu skapað aukna smithættu.

„Jú ég hef nú áhyggjur af þessu. Því að við verðum að reyna að halda okkur við þessar sóttvarnarreglur og það þýðir að það þarf að vera 4 metrar á milli tjaldeininga nema þú sért í fjölskyldu sem er að ferðast saman þá má þetta vera styttra á milli.“

Hvert fara þjóðhátíðargestir?

Yfileitt hafi verið fjölmenni á tjaldsvæðunum um verslunarmannahelgina. Ekki sé ljóst hvað gerist núna.
 
„En núna rennir maður svolítið blint í sjóinn með þetta af því að maður veit ekki hvert fólk fer sem er vant að fara til Vestmannaeyja. Og ef allur sá fjöldi ætlar að koma á einhverja fáa staði á landinu þá verða einhver vandræði. Það liggur alveg ljóst fyrir.“
 
Tryggvi segir að fólk verði að fara varlega.
„Eins og margoft hefur komið fram hjá þeim sem eru í eldlínunni í þessu að það má lítið útaf bera svo allt fari af stað aftur og þjóðin hefur bara ekki efni á því.“

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV