Sjaldan leitað eins margra barna og í júní

Mynd með færslu
Guðmundur Fylkisson, lögreglumaður. Mynd: Guðmundur Bergkvist  - RÚV
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 25 beiðnir í júní um að leita að týndum ungmennum. Það er talsvert yfir meðaltali og sjaldan hafa svo margar beiðnir borist um leit að ungmenni í einum og sama mánuðinum. Ekki er óalgengt að leita þurfi sömu ungmennanna ítrekað og hefur lögregla til dæmis þurft að leita hátt í 60 sinnum að sama unglingnum.

Guðmundur Fylkisson aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hefur síðastliðin sex ár starfað við að leita týndra ungmenna. Hann segir að yngstu börnin sem leitað var í júní hafi verið 13 ára og að fæst ungmennanna séu í alvarlegri vímuefnaneyslu.

„Á sama tíma er COVID-ástandið aðeins að losna upp, þá fara krakkarnir af stað líka. Þau eru búin að vera svolítið innilokuð eða með minna rými til þess að vera úti á ferðinni. Svo kom óvenju mikið af nýjum krökkum inn í júní. Mig minnir að þau hafi verið sjö,“ segir Guðmundur.
 

 

 

Á þessu ári hafa lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu borist 111 leitarbeiðnir, 29 vegna stúlkna og 82 vegna pilta. Á bak við þessar beiðnir eru 39 börn, 14 stúlkur og 25 piltar og einu sinni var lýst eftir barni. Beiðnunum fækkaði töluvert í mars, apríl og maí þegar samkomutakmarkanir voru strangar, en Guðmundur segir að þau sem eigi við mestan vanda að etja hafi ekki látið breytt ástand í samfélaginu hafa áhrif á sig.

„Stór hluti af leitarbeiðnunum fram til júní eru krakkar sem glíma við meiri vanda og eru sífellt að koma við sögu og þau eru ekkert að svo mikið að spá í hvort það sé Covid eða ekki Covid,“ segir Guðmundur.

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi