Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

„Síðustu viku hefur Trump notað borgina okkar sem svið“

19.07.2020 - 12:26
Mynd: Beth Nakamura / Associated Press
Bandaríska alríkislögreglan er sögð keyra um götur í Portland og grípa mótmælendur af götunni í ómerktum bílum. Saksóknari Oregon-ríkis hefur kært bandarísk stjórnvöld fyrir að ólöglegar handtökur.

Íbúar Portland hafa mótmælt lögregluofbeldi, í kjölfar morðsins á George Floyd, 52 daga í röð. Síðustu daga hefur alríkislögreglan skorist í leikinn og Ted Wheeler, borgarstjóri Portland, sakar Donald Trump Bandaríkjaforseta um að nota borgina sem pólitískan leikvang. „Síðustu viku hefur Trump forseti notað borgina okkar sem svið til þess að koma sínum pólitísku áherslum á framfæri.“

Wheeler segir að með því að senda alríkislögregluna á mótmælendur sé forsetinn að stofna borgarbúum í hættu og sakar hann um að nota hana sem sinn persónulega her. „Herra forseti, alríkisstofnanir ættir þú aldrei að nota sem þinn eigin persónulega her.“

Keyra um og grípa fólk af götunni

Oregon public broadcasting, OPB, greindi fyrstur miðla frá því í vikunni að fólk í hernaðarklæðum væri farið að keyra um borgina í ómerktum bifreiðum og handtaka fólk án þess að gefa upp nokkurrar ástæðu. Ellen Rosenblum, ríkissaksónari í Oregon hefur lagt fram kæru gegn bandarískum stjórnvöldum vegna afskipta þeirra af mótmælendum. Í tilkynningu frá henni segir að aðferð stjórnvalda komi ekki einungis í veg fyrir það að fólk geti nýtt sér réttinn til þess að mótmæla friðsamlega heldur skapi einnig hættulegar aðstæður á götum borgarinnar.