Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir formann VR tefla störfum félaga sinna í hættu

19.07.2020 - 18:00
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Félagi í VR og starfsmaður Icelandair segir að Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR vinni beinlínis gegn hagsmunum Icelandair og tefli störfum félagsmanna sinna í hættu. Ragnar Þór segir nýjan kjarasamning Icelandair og Flugfreyjufélagsins ekki breyta þeirri skoðun sinni að stjórnendur Icelandair hafi sýnt starfsfólki óboðlega framkomu.

Samningurinn breytir ekki afstöðu minni, segir Ragnar Þór

Í yfirlýsingu stjórnar VR í fyrradag beindi hún þeim tilmælum til stjórnarmanna, sem VR skipar í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna, að sniðganga eða greiða atkvæði gegn þátttöku sjóðsins í væntanlegu hlutafjárútboði Icelandair. Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR segist ekki geta svarað hvort stjórn VR skipti um skoðun: 

„Mitt mat á stöðunni svona í fljótu bragði er að þetta breyti í sjálfu sér ekki alla vega minni afstöðu í garð stjórnenda fyrirtækisins. Mér finnst málin hafa fengið að fara alltof alltof langt og framkoman bara algerlega óboðleg,“ segir Ragnar Þór. 

Ber fullt traust til fulltrúa VR í stjórn sjóðsins

Hann segist auðvitað fagna því að deilendur nái saman og að stjórn VR muni líklega taka afstöðu síðar í vikunni. Stefán Sveinbjörnsson formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna einn fjögurra stjórnarmanna sem kjörnir eru af VR segir á visi.is að stjórn sjóðsins taki sjálfstæðar ákvarðanir og segir að stjórnin meti þegar útboðslýsing hlutafjárútboðs Icelandair liggur fyrir hvort sjóðurinn taki þátt. 

„Við berum fullt og fullkomið traust til okkar stjórnarmanna inni í lífeyrissjóðnum. Við getum ekki sagt stjórnarmönnum fyrir verkum í sjálfu sér. Það er alveg rétt hjá honum að þetta er bara sjálfstæð ákvörðun stjórnarinnar og stjórnarmanna. Okkar hlutverk er að skipa í stjórnina. Okkar hlutverk er að vera stefnumótandi fyrir lífeyrissjóðinn. Og okkar hlutverk er að hafa skoðanir á þessum hlutum og setja okkur ákveðin viðmið og þrýsta á að sjóðurinn setji sér ákveðin viðmið,“ segir Ragnar Þór. 

Starfsfólk Icelandair óánægt með ummæli formanns VR

Hundruð starfsmanna Icelandair eru félagar í VR og er fyrirtækið með einn fjölmennasta hópinn innan VR. Gróa Ásgeirsdóttir starfsmaður Icelandair og félagi í VR segir á Facebook í framhaldi af ummælum Ragnars Þórs og yfirlýsingu stjórnar VR í fyrradag að hún ætli að segja sig úr VR. Ásta Benónýsdóttir deildarstjóri á þjónustusviði Icelandair er meðal hundruðu starfsmanna Icelandair sem eru félagar í VR. Hún segir almennt mikla óánægju með ummæli formanns VR. 

„Mér finnst ótrúlegt að forsvarsmaður stéttarfélags sem ég er í ásamt hundruð annarra starfsmanna hjá Icelandair sé beinlínis að vinna gegn hagsmunum félagsins og tefla störfum okkar í hættu.“

Höfum tekið á okkur launalækkanir

Stjórn VR segir í yfirlýsingu að mörgum sem starfað hafi í áratugi hjá Icelandair hafi verið sagt upp á meðan Icelandair stundi félagsleg undirboð með því að útvista störf í öðrum löndum.  

„Það eru nokkur hundruð félagsmenn hjá VR sem var sagt upp núna í vor í kjölfar faraldursins og það heyrðist ekkert frá honum þá. En það má líka alveg taka það fram að það er ekki bara verið að semja við crewið og annað, skrifstofufólk hefur tekið á sig töluverðar launalækkanir og við erum búin að þurfa að breyta vöktum og annað til þess að aðlaga okkur að þessu sem er náttúrulega líka tekjuskerðing fyrir starfsfólk.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV