Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Samningur mikilvægur til að halda Icelandair gangandi

19.07.2020 - 03:51
Mynd: Rúv / Rúv
Áríðandi er að vera með samning við flugfreyjur Icelandair. Þetta segir Bogi Nils Bogason forstjóri félagsins í samtali við fréttastofu eftir að kjarasamningur við Flugfreyjufélag Íslands var undirritaður í nótt.

Markmiðið hefði alltaf verið að semja við Flugfreyjufélag Íslands enda væri það mikilvægt til að halda flugfélaginu gangandi.

Bogi segir niðurstöðuna ágæta og í takt við markmið félagsins. Samningurinn byggir að mestu á fyrri samningi frá 25. júní síðastliðnum sem félagsfólk Flugfreyjufélagsins felldi í atkvæðagreiðslu.

Bogi segir þó ákveðin atriði skýrð betur ásamt því að samningurinn innihaldi viðbótarhagræðingu fyrir fyrirtækið.

Bogi kveður það ekki vera stórmál að draga uppsagnir flugfreyja til baka, sem verði gert þegar á morgun. Nú muni flugfreyjur sem fyrr sinna öryggisþáttum um borð í flugvélum Icelandair en ekki flugmenn eins og til stóð.

Bogi Nils Bogason segist vonast til að samningurinn verði samþykktur en framundan séu samningviðræður við lánardrottna Icelandair og undirbúningur hlutafjárútboðs.