Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Samningur flugfreyja og Icelandair í höfn

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Samninganefnd Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair hafa undirritað nýjan kjarasamning.

Gert er ráð fyrir að nýi samningurinn gildi til 30. september 2025. Hann byggir á samningi sem nýverið var felldur í atkvæðagreiðslu.

Samkvæmt tilkynningu frá Flugfreyjufélaginu felur nýi samningurinn hins vegar í sér breytingar á tveimur umdeildum ákvæðum.

Málamiðlun náðist um aukafrídaga fyrir flugfreyjur eldri en 60 ára og um svokallaða sex daga reglu. 

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari segir í samtali við fréttastofu að sameiginleg ástríða forystumanna Icelandair og flugfreyja fyrir félaginu hafi landað samningnum.

Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair segir í yfirlýsingu að með samningnum náist nauðsynleg hagræðing fyrir félagið. Síðustu dagar hafi verið erfiðir en hann fagnar niðurstöðunni sem sé gríðarlega mikilvægt skref í því stóra verkefni sem Icelandair stendur frammi fyrir.

Samningurinn verður kynntur félagsmönnum Flugfreyjufélags Íslands á fundi 20. júlí og verða greidd atkvæði um hann í kjölfarið. Atkvæðagreiðslunni lýkur 27. júlí.