Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Óttast að átök föstudagsins geti haft áhrif áfram

19.07.2020 - 17:03
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Forseti Alþýðusambands Íslands og framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins fagna kjarasamningi Icelandair og Flugfreyjufélags Íslands sem var undirritaður í nótt. Forseti ASÍ óttast að yfirlýsingar föstudagsins eigi eftir að hafa afleiðingar, enda hafi Icelandair farið ansi langt í að sniðganga viðsemjendur sína. Framkvæmdastjóri SA segir að stjórnvöld hafi engan þrýstingi beitt hvorki Icelandair né SA.

„Það er náttúrulega gleðilegt að það hafi verið undirritaðir kjarasamningar. Þetta er það sem á að gerast þegar samningar eru felldir, að samningsaðilar setjist aftur við samningaborðið og reyni til þrautar að finna nýjar leiðir. Það gerðist í nótt svo að nú er valdið í höndum félagsmanna Flugfreyjufélagsins, eins og vera ber,“ segir Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að það hafi verið fyrsti, annar og þriðji valkostur samtakanna og Icelandair að ná samningum við Flugfreyjufélagið. „Það er rétt sem þú segir að það urðu vendingar í gær og síðan í nótt sem leiddu til þess að nýr kjarasamningur var undirritaður. Þessi samningur fer nú í atkvæðagreiðslu hjá félagsmönnum. Ég vænti þess að sjálfsögðu að hann verði samþykktur og að allir starfsmenn félagsins muni núna ganga samhentir til verks um að standa vörð um rekstrarhæfi þeirra til framtíðar.“

Atburðir föstudagsins ræddir í haust

Drífa segir að þegar kjarasamningar séu undirritaðir séu ágreiningsefni lögð til hliðar. „Hins vegar voru yfirlýsingarnar á föstudeginum með þeim hætti að ég óttast að þetta muni hafa afleiðingar. Við eigum eftir að melta þetta og þetta mun að sjálfsögðu verða til umræðu í haust. Þarna fór fyrirtækið ansi langt, með stuðningi Samtaka atvinnulífsins, að sniðganga viðsemjendur sína eða hóta því. Það er ekki þannig samkvæmt íslenskum vinnumarkaði að fyrirtæki geti valið sér samningsaðila,“ segir Drífa. Verkalýðsfélögin byggi á samtakamætti launafólks og þau eigi að virða.

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Jónsson - RÚV

Viðræðuslit Icelandair á föstudag og yfirlýsing um að samið yrði við annan en Flugfreyjufélagið vöktu hörð viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar. Aðspurður hvort að þetta geti haft langvinn og slæm áhrif á samstarf á vinnumarkaði segir Halldór Benjamín: „Myrkrið er dimmast skömmu fyrir dagrenningu var einhvern tímann sagt og ég held að það eigi ágætlega við í þessu tilviki. Það sem mest um vert er hins vegar þetta: að Icelandair og Flugfreyjufélagið hafa náð saman og nú er búið að leiða þessa gríðarlega þungu kjaradeilu, sem hefur staðið í nítján mánuði, til lykta.“

Vinnulöggjöf ekki breytt einhliða

Halldór Benjamín sagði í viðtali við fréttastofu á föstudag að breyta þyrfti vinnulöggjöfinni. Drífa segir að vinnulöggjöfin hafi reynst ágætlega og henni verði ekki breytt nema í sátt. „Henni verður ekki breytt einhliða og það væri að sjálfsögðu algjör stríðsyfirlýsing ef annar aðilinn ætlaði að fara í samstarf við stjórnvöld um að breyta grundvallarreglum vinnumarkaðarins einhliða.“

Enginn þrýstingur

Ráðamenn hafa lýst Icelandair sem einu mikilvægasta fyrirtæki landsins og boðað ríkisábyrgð ef stjórnendur þess ná að endurfjármagna reksturinn. Aðspurður hvort stjórnvöld hafi haft einhver afskipti af kjarasamningunum eftir yfirlýsingu Icelandair á föstudag svarar Halldór Benjamín. „Stjórnvöld höfðu engin afskipti eða þrýsting inn í þessa deilu, hvorki við Icelandair eða Samtök atvinnulífsins.“