Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Nú verð ég drepin fyrir að tala illa um fólk“

Mynd: RÚV / RÚv

„Nú verð ég drepin fyrir að tala illa um fólk“

19.07.2020 - 10:00

Höfundar

Þórdís Gísladóttir er mikil stemningsmanneskja sem nýtur sín best í skemmtilegheitum. Henni finnst fátt erfiðara en að gera það sem er leiðinlegt og af þeim sökum voru menntaskólaárin henni hræðileg. Hún segir að það sé mikilvægt að tala um tilfinningar en henni finnist stundum nóg um hvernig fólk keppist við að bera harm sinn á torg.

Þórdís, sem er í senn rithöfundur, þýðandi og Múmínálfa-sérfræðingur, hefur aldrei verið mikil sumarfrístýpa heldur lýsir sjálfri sér sem vertíðarþræl. Sumrin hefur hún í gegnum tíðina stundum nýtt í tjaldútilegur og veiðar á Þingvöllum þó hún sé ekki eins lunkin stangveiðikona og hún myndi sjálf kjósa. „Mig langar að vera svona Wathnesystir í vesti með fisk. Sonur minn hefur verið veiðivörður og leiðsögumaður en ég er léleg í að vera með græjur. Ef ég væri með hobbí væri ég ábyggilega með fisk á prófílmyndinni á Facebook,“ segir hún sposk. Hún ræddi við Jakob Birgisson í Sumarsögum á Rás 2.

Lenti í ógæfu í Amsterdam og missti af flugi

Hún hefur þó tekið sér ágætis sumarfrí og segir eitt það eftirminnilegasta vera þegar hún fór í interrail með vinkonu sinni. Þórdís vill samt ekki gefa mikið upp um hvað dreif á daga þeirra stallsystra í ferðinni. „Hún myndi segja upp vinskapnum núna ef ég færi eitthvað að tala um það og þá ógæfu sem við lentum í,“ segir Þórdís. „En þetta var löng lestarferð til Portúgal þar sem við til dæmis sváfum á lestarstöð. Við lentum í Amsterdam í alls konar ógæfu og misstum af flugi. En við erum báðar virðulegar konur núna og reynum að bæla þetta.“

„Nú verð ég drepin fyrir að tala illa um fólk“

Talandi um bælingu. „Ég er talsmaður bælingar, í alvörunni,“ segir hún. „Það er mjög gott vissulega að fólk harki ekki af sér og svona en stundum hugsa ég jæja, hvernig væri að bera harm sinn í hljóði, elsku vinir?“ Hún segir gott að leita sér hjálpar en líka mikilvægt að sættast við bresti. „Nú verð ég drepin fyrir að tala illa um fólk og kanselleruð.“

Vildi ekki ljónahárgreiðslu

Hún bjó í Bandaríkjunum í um eitt og hálft ár þar sem hún starfaði við að hugsa um börn á Long Island. Hún minnist tískunnar sérstaklega. „Það er mikið hnakkasvæði. Allar konurnar voru með ljónahárgreiðsu og allir í steinþvegnum gallabuxum. Ég ætlaði ekki að vera eins og þær svo þegar ég fór í klippingu í litlum hvalveiðibæ útskýrði ég svo vel að ég ætlaði ekki að fá svona Farah Fawcett ljónagreiðslu. Hún skildi mig svo fullkomlega að þegar ég gekk út var ég alveg eins og félagsráðgjafi frá 1970 með innrúllað hár og innrúllaðan topp. Þá hugsaði ég að ég hefði útskýrt þetta of vel.“

Hún komst að því eftir nokkurra ára dvöl í Bandaríkjunum að landið hentaði henni ekki lengur. Þórdís færði sig því með manni sínum og tveimur börnum yfir til Svíþjóðar. „Þar vorum við í mörg ár. Svíþjóð hentaði mér betur á því skeiði, allir voru góðir við börn og maður þarf ekki að vera á bíl. Mér finnst allt í lagi að skreppa á bíl en ég vil ekki að það sé forsenda daglegs lífs míns.“

Furðufuglar í Háskólanum en leiðinlegt að vinna þar

Þórdís er með BA-próf í íslensku, lærði bókmenntir og er menntuð í norrænum fræðum með áherslu á félagsleg málvísindi. Þegar heim til Íslands var komið vann hún fyrst um sinn í leikskóla en starfaði svo sem verkefnastjóri í Háskóla Íslands. „En svo ákvað ég að hætta að vinna því mér fannst það leiðinlegt.“ Hún segir mikið af skrýtnu fólki í Háskólanum og að hún hafi oft þurft að taka tillit til undarlegra sérþarfa. „Maður setur til dæmis ekki Jón Jónsson í pallborð klukkan tíu því þá segir fólk: Nei, hann getur ekki komið fyrr en eftir hádegi. Þetta er rosalega mikið svona, allir tiplandi á tánnum, einhverjir máttu ekki hittast því einn hafði stungið undan öðrum 1970. Þetta er skemmtilegt en getur verið þreytandi.“

Rakspýralykt og kókaín á auglýsingastofu

Næsti áfangastaður Þórdísar var auglýsingastofa í afleysingum. „Þetta var á árunum rétt fyrir hrun þegar menn voru að drekka kristal og taka kókaín. Það er dálítil rakspíralykt þarna,“ segir hún. Fljótlega eftir það sneri hún sér að ritstörfunum að mestu og starfar hún sem fyrr segir sem þýðandi og rithöfundur og hefur hún meðal annars sent frá sér vinsælar ljóðabækur. Hún er þó ekki alæta á ljóðlist. „Mér finnst mörg ljóð leiðinleg. Það er svo oft allt voða upphafið í kringum ljóð,“ segir hún. Mestan innblástur í ljóðagerð hefur hún sjálf fengið frá skandinavískum skáldkonum. „Ég er sósíalrealisti en hef samt mikinn áhuga á fortíðinni.“ Hún nýtur þess þó sjálf að skrifa og gefa út ljóð en segir að það sé sér afskaplega erfitt að gera það sem henni finnst leiðinlegt. „Þegar ég var í unglingavinnunni og þurfti að fara út á morgnanna að tína sígarettustubba eða gróðursetja tré, þá fannst mér það bara óbærilegt. Núna myndi ég bara segja: Ég er svo kvíðin að ég get þetta ekki.“

Námsráðgjafinn hló að vandamálunum

Menntaskólaárin segir hún hafa verið sér erfið af sömu ástæðu. „Þau voru hræðileg. Ég hætti nokkrum sinnum í menntaskóla, var fyrst í Flensborg en hætti þar tvisvar og fór í fússi. Ég hef ekki komið þangað síðan,“ segir hún. Hún leitaði einu sinni til námsráðgjafa vegna erfiðleikana en viðbrögð hennar voru ekki þau sem Þórdís hefði búist við. „Ég veit ekkert hvað ég sagði við hana en hún fékk hláturskast, ég var bara 18-19 ára og það var eins og ég væri skemmtikraftur svo ég fór bara út.“

En það var ekki allt slæmt við menntaskólaárin. „Ég var voða mikið að skemmta mér og fara á böll. Ég átti rosalega góðar vinkonur sem ég á enn. Það var alls konar þunglyndi og almenn unglingaleiðindi en það var mest partí. Ég er mjög mikil stemningasmanneskja og þar sem ég er er oft djamm.“

Rithöfundar óttalegir kverúlantar

Þær Hildur Knútsdóttir, rithöfundur og vinkona Þórdísar, gefa út þriðju sameiginlegu unglingabókina fyrir jól og svo er Þórdís að klára þýðingu. „Þýðingar neyða mann til að sitja á rassgatinu og fara djúpt í hluti. Þetta er eins og að þræða perlur á band og velta fyrir sér hverri einustu,“ segir hún.

En hvað finnst henni almennt um kollega sína á ritvellinum? „Þetta eru óttalegir kverúlantar,“ segir hún og hlær. „Finnst þeir eiga svo mikinn rétt á listamannalaunum og svona. En rithöfundar eru frábært fólk, skemmtilegasta fólkið.“

Rætt var við Þórdísi Gísladóttur í Sumarsögum á Rás 2.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Gramsað í Tinder fortíðar: „Fríðleiki ekki aðalatriði“

Bókmenntir

„Það rennur alveg af mér, sko“

Bókmenntir

Heimspekin og kjarnorkuváin í Múmíndal