Keppendur voru í fínu formi á endaspretti mótsins í dag en mótið hófst á föstudag. Júlí er óvanalegur tími fyrir Íslandsmót í sundi en mótið átti upprunalega að fara fram í apríl.
Birnir Freyr Hálfdánarson úr SH bætti drengjametið í 400m fjórsundi en hann synti á tímanum 4:47,90 og hafnaði í 2. sæti í greininni. Gamla metið var 5:00,21 frá árinu 2013.
Hann bætti einnig drengjametið í 50m flugsundi þegar hann synti á 26,39 en gamla metið var 26,87 sem hann átti sjálfur frá því í mars á þessu ári.
Hjörtur Ingvarsson úr Firði setti Íslandsmet í flokki S5 í 100m baksundi á tímanum 1:47,16. Gamla metið var 1:49,91 frá árinu 2018.
Sonja Sigurðardóttir úr ÍFR setti met í flokki S4 í 100m skriðsundi. Hún synti á tímanum 2:13,04. Metið var 2:15,73.
Í síðustu grein mótsins bætti sveit SH piltametið í 4x100m fjórsundi en þeir syntu á tímanum 4:07,25 og bættu þar 8 ára gamalt met ÍRB sem var 4:16,12. Sveitina skipuðu þeir Veigar Hrafn Sigþórsson, Snorri Dagur Einarsson, Símon Elías Statkevicius og Daði Björnsson.
Öll úrslit mótsins má finna hér.