Fyrir 393 árum stigu ofbeldismenn frá Norður Afríku á land í Vestmannaeyjum vopnaðir sveðjum, hnífum og byssum. Þar hertóku þeir um fjögur hundruð Íslendinga og fluttu þá nauðuga suður um höf til þrældóms. Í hópnum var Guðríður Símonardóttir, eða Tyrkja-Gudda eins og hún var síðar kölluð. Hún átti eftir að dvelja í áratug í ánauð í Alsír þar sem hún skrifaði manni sínum fjölda bréfa sem eru ein ítarlegasta heimild sem til er um Tyrkjaránið. Steinunn Jóhannesdóttir rithöfundur heillaðist af sögu Guðríðar og gaf út skáldsöguna Reisubók Guðríðar þar sem hún fylgir Guðríði á ferðum hennar og byggir frásögnina á heimildum um hana. Steinunn var gestur Gunnars Hanssonar og Höllu Harðardóttur í Sumarmálum þar sem hún sagði frá þessum skelfilega atburði og því hvílíkur örlagavaldur hann hefur verið í hennar eigin lífi.
Bærinn lagður í rúst og helmingur íbúa tekinn til fanga
Sumarið 1627 námu ræningjarnir land á Íslandi. „Þetta var blandaður her sjóræningja sem hafði umboð sinna yfirvalda til að sigla um höfin og ræna fé og fólki. Þetta var her, verktakar í herferð, sem fór um höf og ruplaði fólki í nafni yfirvalda,“ segir Steinunn. Í Grindavík voru hátt í 20 manns teknir til fanga og svo gerði hópurinn atlögu að Bessastöðum. „Þeir reyndu að sigla inn til Bessastaða en þar sem sigling þangað er mjög skerjótt festust ræningjarnir.“
Stærstur hluti sjóræningjanna kom frá Algeirsborg í Alsír sem var á þeim tíma aðalbækistöð Tyrkjaveldis. Herinn réðst á suður hluta Austfjarða þar sem þeir náðu hundrað og tíu manns og níu voru myrtir. „Svo urðu vindar óhagstæðir svo þeir sneru við en eitt skip bættist í hópinn sem tekur land í Vestmannaeyjum.“
Þó Vestmanneyingar væru ekki búnir undir áhlaupið höfðu íbúar eyjunnar reynt að lappa upp á varnirnar síðan fregnir af árásum ræningjanna á Ísland bárust þangað. „Samt verður að segja að það kom þeim í opna skjöldu að fá svona hryllilega innrás. Þeir taka land um nótt og fara eins og grenjandi ljón yfir svæðið og drepa fullt af fólki,“ segir Steinunn. „Bærinn sjálfur eða þorpið er lagt í rúst, það er kveikt í aðal byggingunum þannig að Vestmannaeyingar eru nánast í rúst og helmingur íbúa tekinn til fanga.“
Eilíf átök kristinna og múslima
Þessi skelfilegi atburður er merkilegur í alþjóðlegu samhengi og tengist langri og blóðugri átakasögu kristinna og múslima. „Það er Tyrkjaveldi sem sendir þetta lið um höfin á meðan við snerum okkar mönnum þangað suður í krossferðir og annað. Þetta voru stöðug stríð kristinna og múslima. Það var frægur brottrekstur múslima frá Spáni um hundrað árum áður svo þetta er fram og til baka.“
Íslendingarnir sem höfðu verið hnepptir í ánauð voru margir boðnir upp á þrælatorgi. Þau átta sig á því að það eru vissir möguleikar á að vera leystur úr haldi en eingöngu ef það eru greiddir nægir peningar til þess. Margir grípa til þess ráðs að skrifa bænaskjal til Danakonungs og biðja um aðstoð. „En það deyja margir, þeir sem eru myrtir og sumir í sjóferðinni. Þetta eru á milli þrjú og fjögur hundruð manns. Sumir deyja af illri meðferð svo það saxast fljótt á hópinn en á meðal þeirra sem komast undan er Guðríður. Hún skilur eftir sig ótrúlega merka heimild sem eru bréfin sem hún skrifar,“ segir Steinunn.
Ástin á barninu sem tekið var af henni
Sem fyrr segir skrifar Guðríður manni sínum og segir undan og ofan af sínum högum en einnig sonar þeirra sem var með henni. „Hún hefur áhyggjur af honum og því að hann verði tekinn af henni svo hún grípur til þess ráðs að skrifa manninum ef ske kynni að hann gæti hjálpað henni að leysa sig út,“ segir Steinunn. „Mér finnst þetta svo stórkostleg heimild um framtakssemi þessarar konu og um ást hennar á barninu.“
Þegar konungur loks bænheyrir Íslendingana og leysir Guðríði og fleiri úr ánauð níu árum síðar er búið að taka af henni barnið. „Þeir Íslendingar sem hann leysir út fylgja konungi í gegnum Evrópu og til Kaupmannahafnar.“
Áköf ást Guðríðar og Hallgríms Péturssonar
Í Kaupmannahöfn kynnist Guðríður ungum Íslendingi sem hún kolfellur fyrir, Hallgrími Péturssyni skáldi. „Hann var þá 22 ára og hún 38 ára. Það tókust á með þeim svo ákafar ástir að hún sem var á leið heim til mannsins síns verður fljótt ólétt en það var stór og alvarlegur glæpur á þessum árum að eiga von á barni utan hjónabands. Þetta var á tímum stóra dóms svo þau urðu þarna brotleg við dönsk og íslensk lög,“ segir Steinunn. Hallgrímur þurfti vegna þessa að hætta í námi og fylgja konu sinni til Íslands. Þar gátu þau gift sig eftir heilmikil málaferli eftir að í ljós kom að maðurinn hennar væri dáinn. „Þau voru svo heppin - innan gæsalappa - að Vestmannaeyingar höfðu orðið fyrir öðru stóru áfalli þegar þeir misstu 45 sjómenn í sjávarháska hálfu ári áður en Guðríður var leyst út. Þá drukknaði maðurinn hennar.“ Guðríður lifði Hallgrím mann sinn sem lést eins og þekkt er úr holdsveiki. Hún sjálf varð hins vegar 84 ára gömul. „Það var ótrúlegt stál í henni,“ segir Steinunn.
Áhugi Steinunnar á lífi Guðríðar hefur leitt hana á merkilega staði. „Ég hef ferðast um allar þessar slóðir því þetta er svo einstakt. Hún var kölluð Tyrkja-Gudda og þjóðsögurnar bjuggu til ljótar sögur um hana en fólk hafði engan skilning á því sem hún hafði reynt í þessu fagra landi, í Alsír, þar sem hún var ambátt í exótísku umhverfi.“