Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Höfðum ekki hugmyndaflug í að þetta gæti gerst

Skemmtiferðaskipið Le Bellot úti fyrir Breiðamerkursandi
 Mynd: Kári Jónasson
Ástæða er að horfa til svipaðra aðgerða og farið var í á Hornströndum varðandi landkomu skipa við Breiðamerkursand. Þetta segir Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri á Höfn og formaður svæðisráðs suðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs, í samtali við fréttastofu.

Það vakti athygli þegar skemmtiferðaskipið Le Bellot festi akkeri úti fyrir Jökulsárlóni í hádeginu í gær og hleypti farþegum um borð í báta sem sigldu um fyrir utan Breiðamerkursand.

Steinunn Hödd Harðardóttir, starfandi þjóðgarðsvörður á suðursvæði Vatnajökulþjóðgarðar, sagði við fréttastofu í gær að tæknilega séð væri ekkert sem bannaði veru skipsins eða að farþegum yrði leyft að koma á land á Breiðamerkursandi.

Reglur skorti um skipakomur á Hornstrandir

Ekki ósvipað mál komu upp á Hornströndum 2018, en þá var systurskip Le Bellot skemmtiferðaskipið Le Boreal sem jafnframt varð fyrsta skemmtiferðaskipið til að koma til landsins í ár, eitt þeirra skipa sem sendu farþega með bátum upp í friðlandið. Engar reglur voru þá um slíkt á Hornströndum. Tæpu ári síðar tók gildi stjórnar- og verndaráætlun fyrir friðlandið þar sem gert var ráð fyrir stærðartakmörkunum skipa sem taka þar land, auk þess sem hópastærðir voru takmarkaðar við 30 manns.

Breiðamerkursandur varð hluti Vatnajökulsþjóðgarðs í janúar í fyrra og er gerð stjórnar- og verndaráætlun þessa hluta þjóðgarðsins nú á lokametrunum. Landtaka af sjó var ekki meðal atriða sem rætt er um núverandi drögum og segir Matthildur ástæðu til að skoða það.

„Við höfum einfaldlega ekki hugmyndaflug í að þetta gæti gerst,“ segir hún. „Ég er ekki búin að ræða við aðra í svæðisráðinu en þetta er eitthvað sem þarf að skoða. Svæðisráðið taki því væntanlega umræðu um mögulegar breytingar á drögum stjórnar- og verndaráætlunar á fundi sínum í ágúst.

Matthildur nefnir, auk öryggis- og verndarsjónarmiða, að eitt af því sem horfa þurfi til sé að að ekki geti hver sem er boðið upp á siglingu á Jökulsárlóni í dag. Til þess þurfa fyrirtæki sérstakt leyfi. Þannig megi heldur ekki koma upp sú staða að farþegar af skemmtiferðaskipum sigli með bátum beint inn í lónið.