Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fjölgun í Skagafirði: „Ætlum að gera þetta að okkar“

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson
Hvergi á landinu fjölgar fólki hlutfallslega meira en á Norðurlandi vestra. Frá í desember hafa bæst við tæplega hundrað íbúar. Sumir eiga engar rætur svæðinu aðrir eru að snúa heim eftir áralanga dvöl í höfuðborginni. Fjölskylda sem elti atvinnutækifæri á Sauðárkrók segist komin til að vera. 

Á Norðurlandi vestra hefur íbúum fjölgað um 1,3% nokkuð umfram meðalfjölgun á landsvísu sem nemur 0,7%. Svæðið er í sókn eftir lægð síðustu ára.

Mynd með færslu
 Mynd: þjóðskrá

„Lífsstíllinn í Reykjavík kostar sitt“

Stígandi í ferðaþjónustu og nýtt gagnaver á Blönduósi er meðal þess sem hefur skipt sköpum. Atvinnuástandið hefur verið nokkuð stöðugt og sveitarfélög liðkað fyrir húsnæðisuppbyggingu með því að fella niður gatnagerðagjöld. Í sveitarfélaginu Skagafirði hafa bæst við 66 íbúar frá í desember. „Lífstíllinn í Reykjavík kostar sitt, og við erum með tvö börn þannig að þegar tækifæri gafst vegna starfs míns til að koma hingað var þetta í rauninni auðveld ákvörðun. Í rauninni er allt hér til alls og ekki yfir neinu að kvarta,“ segir Drengur Óla Þorsteinsson, lögfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. 

Vandræði með daggæslupláss

Drengur er frá Þórshöfn en Guðný Friðfinnsdóttir, unnusta hans, er frá Siglufirði og bjó á Sauðárkróki á menntaskólaárunum. Hún segir að það hafi verið gott að búa þar þá en enn betra núna með börnin. Þau segjast finna fyrir uppgangi á svæðinu, það sé helst skortur á húsnæði og daggæsluplássum sem stoppi fólk. „Við erum búin að lenda í pínu vandræðum, það er eins og þau hafi ekki verið alveg undirbúin fyrir rosalega aðsókn af barnafólki en það er verið að vinna í þeim málum,“ segir Guðný. SJálf er hún í fæðingarorlofi en ætlar að hefja nám í kennslufræði í haust. 

„Meikaði sens“

Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason - RÚV
Sauðárkrókur.

Sumir flytja aftur heim eftir áralanga búsetu í höfuðborginni. „Konan mín vann hjá wow-air, það fór á hausinn og þá þurftum við að finna eitthvað fyrir okkur bæði. Mér bauðst vinna hérna á Sauðárkróki og við ákváðum bara að drífa okkur, hún var ólétt og barn á leiðinni þannig að það einhvern veginn meikaði sens að fá vinnu, erum með mikið bakland og hún reyndar úr Kópavogi þannig að þetta var nýtt fyrir hana,“ segir Helgi Sæmundur Guðmundsson,  tæknistjóri á sýndarveruleikasetrinu, 1238: Baráttan um Ísland. 

Setrið er ársgamalt og hefur að sögn Helga skapað um átta störf. Þá stendur til að bæta við átta störfum hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og ráðast í alls kyns framkvæmdir á svæðinu.

Þakkar uppganginn fjölbreytni í atvinnulífi

Sveitarstjórinn segir gott að búa í Skagafirði. „Við finnum fyrir því að hér er talsverður vöxtur í atvinnulífi. Við vorum auðvitað hrædd eins og flest sveitarfélög fyrir Covid og gripum til margvíslegra aðgerða í kringum það en hér er atvinnuleysi frekar lágt í dag, þetta hefur gengið vel og það er mikil fjölbreytni þannig að fólki gengur býsna vel að fá atvinnu og starf við sitt hæfi,“ segir Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri sveitarfélagsins Skagafjarðar. Reksturinn verði kannski ekkert æðislegur í ár  en það gangi samt vel og líklega betur en víða annars staðar. 

Byggingaráform

Unnið er að því að bæta úr húsnæðisskorti, verið að innrétta íbúðir í gamla barnaskólanum og til stendur að byggja 30 íbúðir á Sauðárkróki og í Fljótunum á næstu mánuðum. Sveitarfélagið hefur byggt átta almennar íbúðir með stofnframlögum frá ríkinu og fékk á dögunum framlag til að byggja 13 leiguíbúðir. 

„Vildum ekki gera þetta í neinu hálfkáki“

Guðný og Drengur eru að gera upp gamalt hús og segjast ekkert á förum. „Það er bara þannig. Við vildum fyrst við værum að draga börnin svona langt ekki gera þetta í neinu hálfkáki, vildum bara koma okkur vel fyrir. Hér líður okkur vel og við ætlum að gera þetta að okkar.“

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV