„Þessi deila átti að leysast við samningaborðið og þar leystist hún á endanum,“ segir forsætisráðherra. Aðspurð hvort ríkisstjórnin hafi þrýst á Icelandair og/eða Flugfreyjufélag Íslands segir hún: „Það var í raun og veru bara ákvörðun ríkissáttasemjara að boða deilendur til fundar í ljósi þess að málið var komið í mjög harðan hnút á föstudeginum.“
Voruð þið í miklum samskiptum við ríkissáttasemjara síðustu daga?
„Hann auðvitað er okkar trúnaðarmaður þegar kemur að erfiðum vinnudeilum. Ég tel að hann hafi haldið mjög vel á þessu máli.
Hefði Icelandair fyrirgert rétti sínum til ríkisaðstoðar ef það hefði haldið uppsögnunum til streitu?
Nú er svo að við höfum gefið skýra yfirlýsingu um aðstoð við félagið svo fremi sem hlutafjárútboð gangi eftir. Það er auðvitað ennþá margt sem á eftir að gerast áður en kemur að því. Við höfum lagt mikla áherslu á það í þessu ferli að ástæðan fyrir stuðningi ríkisins er auðvitað að þetta sé flugfélag með höfuðstöðvar á Íslandi og með íslenska kjarasamninga á íslenskum vinnumarkaði.“