Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vel hefur gengið að dæla burt vatni

18.07.2020 - 23:37
Mynd með færslu
 Mynd: Ingvar Erlingsson - Aðsend mynd
Enn er unnið við að dæla vatni úr fráveitukerfinu á Siglufirði og miðar vel að sögn Ámunda Gunnarssonar slökkviðliðsstjóra Slökkviliðs Fjallabyggðar.

Ámundi gerir ráð fyrir að dælingu ljúki um miðnætti en þá ætti dælukerfi bæjarins að ráða við það sem eftir er.

Í fyrramálið er háflóð og þá verður staðan í kerfinu metin að nýju. Dregið hefur úr úrkomu þótt enn rigni.

Að sögn lögreglunnar á Tröllaskaga hafa litlar skriður fallið í Múlanum án þess að ná niður á veg. Ekkert tjón hefur orðið.

Staðan á Húsavík er góð að sögn Gríms Kárasonar slökkviliðsstjóra Norðurþings. Þar snardró úr rigningu síðdegis og Búðará dreifir ekki lengur úr sér eins og hún gerði.

Dælukerfi bæjarins hefur nú undan og ekki flæðir lengur upp úr niðurföllum. Öllu því vatni sem flæddi inn í kjallara stjórnsýsluhússins hefur verið dælt burtu og rýmið þurrkað.

Grímur segir að ekki hafi orðið teljandi tjón í kjallara stjórnsýsluhússins af völdum vatnsins.