Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Trump kann enn að sigra þó staða hans sé veik

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RUV
Þó að staða Donald Trumps Bandaríkjaforseta sé veik miðað við aðra sitjandi forseta sem gefið hafa kost á sér til endurkjörs þýðir það ekki endilega að hann nái ekki aftur kjöri. Þetta sagði Silja Bára Ómarsdóttir prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands í þættinum vikulokunum í morgun.

Joe Biden frambjóðandi demókrata hefur mælst með meira fylgi í skoðanakönnunum en Trump og spurði þáttastjórnandinn Sigríður Dögg Auðunsdóttir hvort mark væri takandi á þeim könnunum.

Silja Bára benti á að John Kerry, frambjóðandi demókrata fyrir forsetakosningarnar 2004 hafi mælst með meira fylgi en George Bush yngri í könnunum. Bush hafi engu að síður verið kjörin forseti.

Staða Trumps sé engu að síður veik. „Það spilar auðvitað inn í hvernig hann er að taka á þessum mótmælum og kröfum sem komið hafa upp varðandi mismunun kynþátta og ofbeldi,“ segir Silja Bára og vísar þar til mótmælaaðgerða í kjölfar andláts George Floyd af hendi lögreglumanns.

Eins hafi forsetinn sætt gagnrýni vegna þess hvernig hann hafi brugðist við kórónuveirufaraldrinu, enda séu efnahagslegar afleiðingum þess í Bandaríkjunum hrikalegar. Yfirvöld í Kaliforníu hafa til að mynda hafið lokunaraðgerðir á ný eftir að hafa farið í gengum harða fyrstu bylgju og þá sé Flórída, sem slapp vel frá fyrstu bylgjunni, nú í hræðilegri stöðu.

Þrífst á að hafa virkan óvin

„Þetta er eitthvað sem Trump er ekki að ná utan um og spurningin hvort að fólk muni refsa honum þegar til kemur?“ sagði Silja Bára. Margir lýsi því yfir að þeir séu ekki sáttir við aðgerðir forsetans, til dæmis varðandi mótmælin. Það skili sér hins vegar ekki endilega á kjördag.

Silja Bára bendir á að ein ástæða þess að Trump stendur nú veikum fótum sé mögulega sú að hann þrífist á að hafa virkan óvin. „Hann þarf að skjóta á einhvern og Biden er bara í kjallaranum sínum í Delaware og er bara á netinu.“

Biden er oft óheppinn og getur verið klaufskur í orðalagi og einangrunin kann því að koma honum vel. „Það er hægt að gera grín að honum. Það er hægt að hæðast að honum og það er það sem að Trump þrífst á og hann er ekki að fá þessi skotfæri,“ segir hún.

Þetta geti þó breyst, en það sé vissulega léleg kosningastrategía að þurfa alltaf að hafa einhvern til að sparka í.

Silja Bára bendir á að frambjóðendurnir tveir séu heldur ekki að ræða við sömu hópa. Þannig setji Biden á sig grímu þegar hann fer út á almannafæri sem Trump geri ekki. Biden sé þannig að reyna að sýna ábyrga framkomu og spegla sig með því gegn Trump. „Að hann ætlar ekki að vera sá sem kallar fólk saman í hópa þar sem smit geti komist af stað. “ Að sama skapi geti munstrið hjá Trump einnig verið meðvitað.

Brenndir eftir úrslitin 2016

Greint hefur verið frá því að Trump muni ekki halda jafn mikið af fjöldafundum og hann gerði fyrir síðustu kosningar og sem hafa hentað honum mjög vel. Þórir Guðmundsson, ritstjóri Stöðvar 2, sem einnig var gestur í þættinum segir þessa ákvörðun ekki síður hafa áhrif á forsetann sjálfan en stuðningsmenn hans. „Það er það sem gefur honum svo mikinn kraft, að geta staðið þarna og talað í tvo klukkutíma blaðlaust um hitt og þetta og menn hlusta á hvert einasta orð,“ segir hann.

Blaðamenn séu hins vegar svo brenndir af úrslitum forsetakosninganna 2016 að þeir séu tregir til að fullyrða nokkuð um útkomu kosninganna í haust út frá skoðanakönnunum. Allar skoðanakannanir bendi hins vegar til ósigurs Trump.

„Þegar málefnin eru skoðuð þá kemur í ljós að efnahagsmálin skipta miklu, miklu minna máli nú heldur en kórónuveirufaraldurinn. Hann fær mjög slæma útreið þegar kemur að dómi kjósenda varðandi það hvernig hann hefur staðið sig,“ segir Þórir.

Silja Bára segir margt þó geta breyst þar til í nóvember. „Ef hann mætir tveimur vikum fyrir kjördag og segir ég er búin að kaupa allt bóluefnið í heiminum fyrir Bandaríkjamenn,“ segir hún, en Trump tilkynnti nýlega að bandarísk stjórnvöld hefðu tryggt sér um 90% af framleiðslu lyfjafyrirtækisins Gilead á lyfinu remdesivir sem gefist hefur vel gegn kórónuveirunni.

Takist Trump að gera eitthvað sambærilegt varðandi bóluefni gegn veirunni, sem enn eru öll í þróun, þá sé staðan hans orðin allt önnur .