Þjóðkirkjan braut jafnréttislög

18.07.2020 - 14:48
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Þjóðkirkjan braut gegn jafnréttislögum þegar sóknarprestur var skipaður í Garða- og Hvalfjarðarstrandarprestakalli á síðasta ári. Þetta er niðurstaða kærunefndar jafnréttismála sem fjallaði um málið og kvað upp úrskurð fyrr í þessum mánuði. Nefndin segir að Þjóðkirkjan hafi ekki sýnt fram á að önnur sjónarmið en kyn umsækjenda hafi ráðið úrslitum um hver var valinn sóknarprestur. Í yfirlýsingu frá Þjóðkirkjunni segir að lærdómur verði dreginn af úrskurði kærunefndar unnið að tillögum um umbætur.

Úrsúla Árnadóttir prestur kærði þá niðurstöðu kjörnefndar að velja Þráinn Haraldsson í stöðu sóknarprests. Sjálf byggi hún yfir meiri starfsreynslu sem prestur og innan kirkjunnar en Þráinn og meiri menntun. Þá hefði hún fengið einkunnina 8,9 hjá matsnefnd sem fór yfir menntun og feril umsækjenda en Þráinn 8,2 og annar karlmaður sem sótti um 9,0. Úrsúla gagnrýndi að sautján manna kjörnefnd hefði kosið leynilega og valið sóknarprest með þann hætti. Jafnframt sagði hún að meirihluti kjörnefndar væru samstarfsfólk Þráins sem verið hafði prestur í prestakallinu í fjögur ár. Aðrir umsækjendur mættu hins vegar reglum samkvæmt ekki hafa samband við kjörnefndarmenn í ferlinu.

Í svörum kirkjunnar sagði að fjórtán af sautján kjörnefndarmönnum hefðu greitt Þránni atkvæði sitt, tveir hefðu stutt Úrsúlu og einn þriðja umsækjandann. Þá er tekið fram að þetta sé í þriðja skipti sem hún sæki um stöðu í prestakallinu en án árangurs. Síðast þegar það gerðist hafi Úrsúlu verið hafnað en tvær aðrar konur ráðnar í stöðu presta við prestakallið. Þetta taldi kirkjan til marks um að Úrsúla hefði ekki orðið af stöðu sóknarprests vegna kynferðis síns. Úrsúla sótti einnig um stöðu prests við prestakallið 2015 en fékk ekki. Þá komst úrskurðarnefnd jafnréttismála að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið gegn henni.

Leynileg atkvæðagreiðsla ekki heimil

Kærunefnd jafnréttismála segir í úrskurði sínum frá því fyrr í þessum mánuði að leynileg atkvæðagreiðsla kjörnefndar hafi gert að verkum að ekki sé hægt að ráða fram úr hvort byggt hafi verið á sjónarmiðum um kynferði þegar prestur var valinn. Nefndin segir að jafnræði hafi verið með umsækjendum í ferlinu fram að þessari kosningu.

Skipað var í stöðu sóknarprests í fyrra þegar prestar voru enn embættismenn. Í úrskurðinum segir að kirkjan hefði þurft að sýna fram á að önnur sjónarmið en kynferði hefðu ráðið niðurstöðunni. Það hefði kirkjan ekki gert. Því var niðurstaðan sú að brotið hefði verið gegn lögum um jafnan rétt kynjanna.

Koma með tillögur að úrbótum

Þjóðkirkjan sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem segir að verkferlar og starfsreglur verði endurskoðuð. Jafnréttisfulltrúa og jafnréttisnefnd verður falið að koma með tillögur að umbótum. 

Fram kemur í yfirlýsingu Þjóðkirkjunnar að biskupi sé ætlað að fara eftir starfsreglum sem kirkjuþing setur um val á sóknarprestum. Það kemur næst saman í september og hyggst biskup „leggja allt sitt atfylgi til að koma breytingum á starfsreglum til leiðar“. Í yfirlýsingunni segir jafnframt að niðurstaðan sé Agnesi Sigurðardóttur biskupi þungbær og að hugur hennar sé hjá Úrsúlu. Agnes hyggst kalla hana á sinn fund á næstunni til að ræða framhaldið.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi