Ökumaður var stöðvaður í miðborg Reykjavíkur þar sem hann brunaði ríflega eitthundrað kílómetrum hraðar en leyfilegt er. Hann var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða en fékk svo að fara heim.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nokkru að snúast í gærkvöld og í nótt.
Snemma í gærkvöld var hópur ungmenna til óþurftar við veitingastað í austurbænum eins og það er orðað í dagbók lögreglu. Ungmenni þessi skapraunuðu starfsfólki og öryggisverði á staðnum.
Eins kom lögregla konu í nauðum til aðstoðar og fylgdi henni til læknis. Lögreglan þurfti einnig að takast á við líkamsárásir, heimilisofbeldi og hávær gleðilæti eftir að skemmtistöðum var lokað.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú meintan reiðhjólaþjófnað í borginni. Hún vinnur jafnframt að því að koma hjólum sem lagt var hald á í austurborginni til réttra eigenda.