Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skemmtiferðaskip varpaði akkeri úti fyrir Jökulsárlóni

Skemmtiferðaskipið Le Bellot úti fyrir Breiðamerkursandi
 Mynd: Kári Jónasson
Skemmtiferðaskipið Le Bellot, sem var annað skemmtiferðaskipið sem kom til Íslands þetta sumarið, festi akkeri úti fyrir Jökulsárlóni í hádeginu í dag og hefur nú verið stopp þar í eina þrjár klukkustundir. Lögregla á Höfn gerði Landhelgisgæslunni viðvart um skipið.

Le Bellot er franskt skip sem býður upp á sjö daga lúxussiglingu hringinn í kringum Ísland. Skipið kom til Reykjavíkurhafnar um síðustu helgi og var farþegunum, sem komu fljúgandi til landsins, gert að bíða eftir niðurstöðu úr sýnatöku áður en þeim var hleypt um borð.

Vaktstjóri hjá Landhelgisgæslunni sagði í samtali við fréttastofu að túlka mætti á ýmsa vegu hvort vera skipsins á svæðinu brjóti í bága við lög. Landhelgisgæslan fylgist vel með skipinu á meðan það er statt úti fyrir Breiðamerkursandi, en þar sem farþegar hafi ekki gert sig líklega til að fara í land þá hafi Gæslan ekki haft samband við skipið.

Steinunn Hödd Harðardóttir, starfandi þjóðgarðsvörður á suðursvæði Vatnajökulþjóðgarðar, segir í samtali við fréttastofu að á milli fjórir og fimm bátar frá skipinu sigli með farþega í kringum skipið. Þeir hafi hins vegar ekki gert sig líklega til að fara í land.

Ekkert sem bannar farþegum að fara í land

Spurð hvort að skipum sé leyfilegt að varpa akkeri á þessum slóðum segir Steinunn Hödd að tæknilega séð sé ekkert sem banni veru skipsins þar. „Þetta er í fyrsta skipti sem þjóðgarðurinn nær alveg niður í fjöru og því er þetta bara í fyrsta skipti sem þetta hefur komið upp hjá okkur,“ segir hún. Vatnajökulsþjóðgarður var stækkaður á þessu ári og nær nú einnig yfir Breiðamerkursand.

Eins og staðan er í dag er ekkert sem bannar farþegum að koma í land á Breiðamerkursandi.

„Það stendur ekkert um þetta í stjórnar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs og nú er verið að leggja lokahönd á stjórnar- og verndaráætlun fyrir Breiðamerkursand, þar sem ég geri ráð fyrir að það verði að taka tillit til þessa,“ segir hún.

Verður rætt á fundi svæðisráðs Suðursvæðis

Þetta er að mati Steinunnar nokkuð sem þarf að skoða. „Ég mun hafa samband við þá ráðgjafa sem eru að skrifa stjórnar- og verndaráætlun núna og biðja þau um að taka tillit til þessa og ræða.“

Steinunn Hödd gerir einnig ráð fyrir að málið verði rætt í svæðisráði Suðursvæðis sem fundar næst í byrjun ágúst.

Hún bendir einnig á að leiðsögumenn á svæðinu hafi haft tekjur af því að flytja ferðamenn yfir að Jökulsárlóni af skipum sem setji niður akkeri í Djúpavogi. Taki skemmtiferðaskip hins vegar að  hleypa farþegum á land beint á Breiðamerkursand segir Steinunn Hödd það væntanlega kosta einhverja vinnuna.