Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sérfræðingar vara við köldu stríði

18.07.2020 - 04:07
Mynd með færslu
 Mynd: Geir Ólafsson
Spenna magnast dag frá degi milli Bandaríkjanna og Kína. Svo rammt kveður að óeiningunni að sérfræðingar álíta að nýtt kalt stríð geti verið í uppsiglingu.

Þó er bent á að margt sé ólíkt með stöðunni nú og í aðdraganda kalda stríðsins milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna.

Eins sé samspil ríkjanna ólíkt því sem var þá. Hætta á alvarlegum átökum sé minni nú, en Kína og Bandaríkin séu þó að feta hættulegt einstigi sem geti komið heiminum í ógöngur.

Trump harðorður í garð Kína

Þeir sem til þekkja eru þó ekki á einu máli um stöðuna. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur farið hörðum orðum um Kínastjórn, sagt hana bera ábyrgð á útbreiðslu kórónuveirunnar og hefur hafnað öllu tilkalli hennar til áhrifa í Suður Kínahafi.

Sömuleiðis hefur hann varað heimsbyggðina ítrekað við að eiga viðskipti við kínverska fjarskiptarisann Huawei. Framganga Kínverja gagnvart íbúum Hong Kong og Uighura í Kína bætir heldur ekki úr skák.

Samskipti Bandaríkjanna við Kína eru eitt helsta kosningamál Trumps en ólíklegt er að samskipti ríkjanna mildist nokkuð hafi Joe Biden sigur því hann hefur sakað forsetann um að sýna Kínverjum ekki næga hörku.

Ríkir viðskiptahagsmunir

Kínverskir ráðamenn sjá Trump sem veikburða leiðtoga, líklegan til að gera mistök, segir Stephen Walt prófessor í alþjóðasamskiptum við Harvard háskóla.

Walt segir að Kínastjórn telji sig geta nýtt sér alvarlega stöðu Bandaríkjanna í kórónuveirufaraldrinum. Hann bendir jafnframt á að þrátt fyrir togstreituna milli ríkjanna séu ríkir viðskiptahagsmunir í húfi.

Þannig var málum aldrei farið í samskiptum Bandaríkjanna og Sovétríkjanna enda hefur Mike Pompeo utanríkisráðherra hvatt vestræn ríki til að slíta viðskiptatengsl við Kína.

Donald Trump forseti vonast þó til að hægt verði að viðhalda samningi sem gerður var við Kína áður en heimfaraldurinn skall á. Shi Yinhong, prófessor í alþjóðsamskiptum við Renmin háskóla í Peking segir bæði ríkin þó gera sér grein fyrir að Kínverjar geti ekki staðið við samninginn að fullu. Því muni samskiptum ríkjanna halda áfram að hnigna.

Óttast bein stríðsátök

Oriana Skylar Mastro,lektor við háskólann í Georgetown varar við kaldastríðslíkingunni; samskipti Kína og Bandaríkjanna eigi ekkert sameiginlegt með því.

Líkur séu á að ef stjórnvöld í Washington líti á Kína sem hugmyndafræðilegan óvin gætu þau gripið til ómarkvissra aðgerða í deilunni. Hún segist jafnvel óttast að til beinna vopnaviðskipta geti komið milli ríkjanna en Bandaríkin og Sovétríkin tókust aldrei á með beinum hætti á tímum Kalda stríðsins.

Á hinn bóginn gætu Kínverjar létt á áhyggjum Bandaríkjastjórnar, til að mynda með því að draga herafla sinn til baka úr Suður Kínahafi. Mastro telur þó ólíklegt að Kínastjórn geri það, að hluta til vegna rangtúlkunar hennar á hvað það sé sem reki Bandaríkjamenn áfram.

Kínverjar álíti að atferli Bandaríkjamanna í samtímanum stafi af hnignandi völdum þeirra í veröldinni. Af því leiði að hvað sem Kínverjar geri verði viðbrögðin alltaf harkaleg.

Því sé hvorki hvati fyrir Kínverja að draga úr eigin metnaði í Asíu eða á heimsvísu né þeim aðferðum sem þeir beita til að ná markmiðum sínum. Það, segir Oriana Skylar Mastro, gæti leitt til stríðs milli ríkjanna.