Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mikil rigning, vatnavextir og hætta á skriðuföllum

18.07.2020 - 07:59
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofan
Gular viðvaranir hafa verið gefnar út víðast hvar á landinu og gilda misjafnlega langt fram eftir degi. Viðvaranirnar eru vegna mikils vinds við Faxaflóa, á Suðurlandi, Suðausturlandi og Austfjörðum en á Vestfjörðum og Norðurlandi eystra og vestra er það rigningin sem getur valdið usla, auk þess sem varað er við skriðuhættu á Vestfjörðum. Miðhálendið getur verið varasamt fyrir göngu- og útivistarfólk vegna hvassrar norðanáttar.

Í dag verður norðanátt, átta til átján metrar á sekúndu, hvassast sunna- og vestanlands, einkum við fjöll. Rigning verður norðantil á landinu, og talsverð rigning á Norðurlandi, einkum á annesjum, en þurrt að kalla syðra.

Mikið vatnsveður norðan til

Útlit er fyrir talsverða rigningu á Vestfjörðum og má búast við auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám  og lækjum. Vöð geta orðið varhugaverð og jafnvel ófærð. Hætta er á skriðum og grjóthruni og álag á fráveitukerfum eykst. Fólk er hvatt til að huga að niðurföllum til að forðast vatnstjón. Ekki er útlit fyrir að dragi úr vatnsveðrinu vestra fyrr en um klukkan fjögur. 

Gular viðvaranir taka gildi á Norðurlandi vestra og eystra um hádegisbil. Talsverð eða mikil rigning verður fyrir norðan með auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum. Hætta er á flóðum og skriðuföllum. Álag á fráveitukerfi eykst og fólk er hvatt til að huga að niðurföllum. Veðurstofan tekur fram að veður er slæmt til útivistar á Ströndum og Norðurlandi vestra.

Hvasst sunnantil

Viðvaranirnar á Suðurlandi eru tvískiptar. Gul viðvörun er í gildi hádegis og svo aftur frá því um fjögur til klukkan níu í kvöld. Báðar snúa að miklum vindi. Hann getur farið í eða yfir 25 metra á sekúndu undir Eyjafjöllum fyrri hluta dags og yfir 30 metra á sekúndu á Suðurstrandarvegi þegar líður á daginn og kvöldið. Strekking eða all hvass vindur gerir Austfirðingum og fólki á Suðausturlandi lífið leitt og getur vindur orðið um eða yfir 25 metrar á sekúndu. Viðvörunin á Suðausturlandi tók gildi klukkan þrjú og gildir fram að kvöldmat. Á Austfjörðum blossar veðrið upp um hádegisbil og stendur fram á kvöld.

Viðvörun fyrir Faxaflóa var gefin út upp úr klukkan átta í morgun. Þar er spáð norðanhvassviðri og geta hviður við fjöll farið í 30 metra á sekúndu, svo sem á sunnanverðu Snæfellsnesi, við Akrafjall og á Kjalarnesi. Sú viðvörun gildir fram að kvöldmat.

Miðhálendið varasamt fyrir útivistarfólk í dag

Á miðhálendinu er hvöss norðanátt sunnantil og staðbundinn stormur sunnan jökla. Gul viðvörun var gefin út rétt fyrir klukkan átta í morgun og gildir til miðnættis. Talsverð eða mikil rigning eða slydda er á miðhálendinu og geta ár og vöð orðið hættuleg. Þetta er varasamt fyrir göngu- og útivistarfólk.

Uppfært 8:20 Gular viðvaranir hafa bæst við fyrir miðhálendið og Faxaflóa.