Kórónuveirutilfellum fjölgar í Urumqui í Kína

18.07.2020 - 22:45
epa08423299 A medical worker takes a swab from a worker for a coronavirus test at a factory in Wuhan, China, 15 May 2020. The city plans to test all its citizens, over 10 million people, within the next 10 days.  EPA-EFE/LI KE CHINA OUT
Tekin voru sýni úr 9,8 milljónum manna í Wuhan seinni partinn í maí. Mynd: EPA-EFE - FEATURECHINA
„Stríðstíma ástandi“ hefur verið lýst yfir í kínversku borginni Urumqui eftir að kórónuveirutilfellum tók að fjölga í borginni. Urumqui er höfuðborg Xinjiang héraðs sem hefur verið í fréttum undanfarið vegna aðgerða kínverskra stjórnvalda gegn minnihlutahópi uighur múslima.

Yfirvöld í Urumqui sögðu í dag 17 ný tilfelli hafa greinst og að strangt samgöngubann hefði verið sett á í borginni.

BBC greinir frá og segir að þó fjöldi smittilfella virðist lítill þá hafi einungis fá kórónuveirutilfelli greinst í Kína eftir fyrstu bylgju faraldursins í Wuhan á síðasta ári.

Ekki hafa verið skráð nema 85.000 kórónuveirutilfelli í Kína og 4.600 dauðsföll samkvæmt tölfræði John Hopkins háskólans.

Um 3,5 milljón manna búa í Urumqi. Fyrstu tilkynningar um ný smit í borginni bárust á miðvikudag og voru það fyrstu smittilfellin þar um nokkurra mánaða skeið. Strax þann dag var öllu flugi frá borginni frestað og ferðir neðanjarðarlesta lagðar niður.

Eftir að tilfellin voru orðin 17 tilkynntu yfirvöld um hertar aðgerðir sem meðal annars fela í sér skimun íbúa í öllum byggingum þar sem ný tilfelli hafa greinst og mögulega síðar í allri borginni.

Bann hefur sömuleiðis verið lagt við öllum hópsamkomum og íbúar eru hvattir til að yfirgefa ekki borgina nema nauðsyn beri til og verða þeir að undirgangast skimun ef svo er.

Rui Baoling, forstjóri smitsjúkdóma og smitvarna, segir smitkjarnan hafa greinst í Tianshan hverfinu og þar hafi smitin breiðst hratt út. Yfirvöld hafi þó enn stjórn á ástandinu.

Héraðsyfirvöld í Xinjiang hafa tilkynnt um 23 tilfelli til viðbótar í vikunni og þá eru 269 manns í héraðinu undir eftirliti lækna.

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi