Keyrir upp í sveit til að tengjast ljósleiðara

18.07.2020 - 19:45
Mynd: Einar Rafnsson / RÚV/Landinn
Grundfirðingur, sem vinnur sem hljóðmaður í fjarvinnu, keyrir upp í sveit til þess að tengja sig við ljósleiðara sem er ekki til staðar í bænum sjálfum. Hann segir það fljótlegra en að hala upp og niður heimavið.

Á Grundarfirði er ljósnet, sem er heldur hægari tenging en ljósleiðari. Þorkell Máni Þorkelsson býr í Grundarfirði og vinnur sem hljóðmaður fyrir kúnna sem eru flestir á höfuðborgarsvæðinu. Vinnunnar vegna þarf hann oft að senda stór skjöl yfir netið.

„Ég fæ náttúrulega allt efnið sent yfir netið hérna heim, og það gengur hægt oft, vegna þess hvað netið er hægt hérna í Grundarfirði,“ segir hann.

Heimanetið þolir álagið illa

Þorkell segir vinnuna sína þá hafa áhrif á heimilislífið. Þegar tvö til þrjú tæki eru farin að streyma verður álagið mikið fyrir nettenginguna.

„Þegar ég er einn heima þá er þetta allt í lagi. Ég lifi það alveg af. Svo kannski kemur konan mín heim að horfa á sjónvarpið og krakkarnir að horfa á Youtube. Þá er bara ekkert pláss fyrir mig lengur.“

Áttfallt sneggri á ættaróðalinu

Sveitirnar utan þéttbýlisins í Grundarfirði hafa þegar verið ljósleiðaravæddar með ríkisstyrkjum. Styrkirnir fást ekki til að tengja þéttbýlið þar sem það telst sem samkeppnissvæði. Því keyrir Þorkell stundum upp í sveit á ættaróðal fjölskyldunnar. Þar, í húsi sem var reist á fyrri hluta síðustu aldar, er ljósleiðaratenging.

„Þetta er sjöfalt, eða meira, sennilega áttfalt hraðara en að sækja efnið heima. Ég er tíu mínútur að keyra hingað, þannig það er fljótt að borga sig. Efni sem tekur kannski heila nótt að sækja heima er klukkutími hérna,“ segir hann.

Boðaðar kvaðir setja strik í reikninginn

Grundarfjörður var hluti af áformum Mílu um ljósleiðaravæðingu, líkt og fleiri þéttbýli á landsbyggðinni. Þau áform eru nú hins vegar í kyrrstöðu vegna draga að markaðsgreiningu hjá Póst- og fjarskiptastofnun, sem benda til þess að Mílu verði gert ókleift að krefjast hærra gjalds fyrir tengingu á dýrari svæðum.

„Ég held þetta sé ekkert spurning um neinn lúxus lengur, heldur bara hvort sé hægt að vinna ákveðnar vinnur hérna úti á landi,“ segir Þorkell.

elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi