Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kanna mögulega íkveikju í dómkirkju

18.07.2020 - 17:17
epa08553436 Fire fighters brigade work to extinguish the blaze at the Saint Peter and Saint Paul Cathedral, in Nantes, France, 18 July 2020. The blaze that broke inside the gothic cathedral of Nantes 18 has been contained, emergency officials said.   FRANCE OUT / SHUTTERSTOCK OUT
 Mynd: EPA-EFE - OUEST FRANCE / MAXPPP
Svo virðist sem eldur hafi kviknað á þremur stöðum í dómkirkju heilags Péturs og heilags Páls í Nantes í Frakklandi. Því hefur verið hafin rannsókn á hugsanlegri íkveikju. Miklar skemmdir urðu á kirkjunni en þær eru þó ekki í líkingu við þær gríðarlegu skemmdir sem urðu í eldsvoðanum í Notre Dame kirkjunni í fyrra.

Vegfarendur sáu eldinn klukkan sex í morgun að frönskum tíma. Um hundrað slökkviliðsmenn börðust við eldinn næstu klukkutímana. 

Bygging dómkirkjunnar hófst á 15. öld og lauk seint á 19. öld. Orgel dómkirkjunnar, sem er í grunninn frá árinu 1621, eyðilagðist alveg í eldinum. Steindir gluggar frá 16. öld urðu eldinum að bráð sem og listaverk eftir 19. aldar málarann Hippolyte Flandrin.

Pierre Sennes, saksóknari í Nantes, sagði að það segði sig sjálft að rannsaka þyrfti hugsanlega íkveikju þegar ljóst væri að eldurinn kviknaði á þremur stöðum. Francois Renaud, sem hefur yfirumsjón með kirkjunni sagði að eldsvoðinn hefði leitt af sér ólýsanlegan missi menningarverðmæta.

Þak dómkirkju heilags Péturs og heilags Páls eyðilagðist í eldi árið 1972. Endurgerð þess tók þrettán ár. Skemmdirnar nú eru mun minni að sögn kunnugra.

epa08553437 Fire fighters brigade work to extinguish the blaze at the Saint Peter and Saint Paul Cathedral, in Nantes, France, 18 July 2020. The blaze that broke inside the gothic cathedral of Nantes 18 has been contained, emergency officials said.   FRANCE OUT / SHUTTERSTOCK OUT
 Mynd: EPA-EFE - OUEST FRANCE / MAXPPP
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV