Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Flugmenn Icelandair á upprifjunarnámskeið um öryggismál

Mynd með færslu
 Mynd: Bogi Ágústsson - RÚV
Sex til átta flugmenn verða um borð í flugvélum Icelandair frá mánudegi. Flugrekstrarstjóri félagsins segir þá hafa alla öryggisþjálfun sem krafist er en fari þó á stutt upprifjunarnámskeið næstu daga. Hagfræðingur segir Icelandair í lífróðri og að verið sé að reyna að bjarga fyrirtækinu.

Fjórir til sex flugmenn verða í farþegarými

 Engar flugfreyjur verða um borð í vélunum frá næsta mánudagi og sinna flugmenn hlutverki öryggisliða í farþegarými. 

„Flugmenn hafa fengið yfirgripsmikla þjálfun um öryggismál flugvélarinnar, samstarf um borð og fleira í þjálfun sinni sem flugmenn. Og sú þjálfun dekkar í raun og veru alla þá þjálfun sem að flugfreyjur fá svo að þeir geta vel sinnt þessu hlutverki,“ segir Jens Þórðarson flugrekstrarstjóri Icelandair. 

Þannig að þeir þurfa ekkert að fara á upprifjunarnámskeið eða eitthvað svoleiðis áður en þeir gerast öryggisliðar?

„Ja, við veljum að gera það þannig að halda stutt upprifjunarnámskeið fyrir flugmenn til þess að setja þau sem venjulega starfa í stjórnklefa í stellingar að starfa í farþegarými og rifja upp ákveðna öryggisþætti. Þau námskeið verða haldin nú í dag og á næstu dögum.“

Hvað verða margir um borð? 

„Flugreglur segja til um mönnun í loftfari, hversu margir eiga að vera um borð í þessu öryggishlutverki og það eru fjórir um borð í 757-vélum og sex í 767-vélum hjá okkur.“

Eru það þá tveir í stjórnklefa plús fjórir?

„Já.“

Þannig að það verða sex eða átta?

„Já, eftir stærð vélarinnar.“

Þjónustan hefur verið lítil sem engin og þetta verður bara svoleiðis áfram er það ekki? 

„Jú, við erum náttúrulega með mjög skerta þjónustu í kjölfarið á COVID faraldrinum og hún verður bara með mjög svipuðu sniði og hún hefur verið undanfarið í þessu nýja fyrirkomulagi.“

Störf flugmanna hugsanlega verkfallsbrot

Forstjóri Icelandair í gær að stefnt væri að því að gera kjarasamninga við annað íslenskt félag en Flugfreyjufélag Íslands. Þau félög eru ekki á hverju strái. Eitt félag sem heitir nú Íslenska flugstéttafélagið hefur samið við flugfélagið Play að því er fram kom í fréttum í nóvember síðast liðnum. Í því félagi voru áður flugmenn sem störfuðu hjá Wow. Ekki hefur tekist að ná sambandi við formann félagsins. 

Jón Þór Þorvaldsson formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna sagði við Fréttastofu fyrir hádegi að hann vonaði að Icelandair og Flugfreyjufélagið sýndu ábyrgð og semdu. Hann segir að 4000 fjölskyldur í landinu hafi beint lifibrauð sitt af því að starfa fyrir Icelandair og því skipti máli að leysa þessa kjaradeilu. 

Flugfreyjufélag Íslands ætlar að kjósa um allsherjarverkfall hjá Icelandair í næstu viku. Verði verkfall samþykkt hefst það 4. ágúst. Það eru hins vegar engar flugfreyjur starfandi hjá Icelandair. Verði verkfall samþykkt gæti verið erfitt fyrir flugmenn að sinna störfum öryggisliða um borð gæti það hugsanlega þýtt verkfallsbrot. 

Icelandair rær lífróður

Hlutafjárútboð Icelandair fer fram í næsta mánuði. Snorri Jakobsson hagfræðingur hjá Jakobsson Capital hefur meðal annars sérhæft sig í flugrekstrarmarkaðinum. 

„Félagið er náttúrulega augljóslega í lífróðri. Það er búinn að vera tugprósenta tekjusamdráttur hjá félaginu og rekstur slíkra fyrirtækja er mjög þungur og þetta er bara lífróður,“ segir Snorri. 

Finnst þér blasa við að það geti brugðið til beggja vona að þetta fyrirtæki haldi velli?

„Það er búið að vera ljóst í nokkurn tíma að staðan er búin að vera slæm. Það er verið að fara í þetta hlutafjárútboð og annað. Það er náttúrulega bara verið að reyna að bjarga fyrirtækinu.“

Ef maður horfir kannski aðeins lengra fram í tímann og það verður kannski ekkert íslenskt flugfélag hér, hverju breytir það fyrir íslenskt efnahagslíf?

„Það er svo sem erfitt að segja hverju það breytir. Það verður náttúrulega erfitt fyrir flugstéttirnar ef það verður ekki neitt íslenskt flugfélag eftir. Svo sem kannski ekki gott ef flug til og frá landinu er háð erlendum aðila með það. Það er kannski ekki draumastaða en náttúrulega erlendir aðilar geta kannski sinnt því eins og innlendir.“