Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Flugfreyjur og Icelandair boðuð á fund

18.07.2020 - 18:20
Mynd: Kristín Sigurðardóttir / RÚV
Ríkissáttasemjari boðaði samninganefndir Icelandair og Flugfreyjufélags Íslands á samningafund nú undir kvöld. Samninganefndirnar eru nú í húsakynnum ríkissáttasemjara í Borgartúni í Reykjavík, en meðal þeirra sem sitja fundinn er Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair.

Ingvar Þór Björnsson hefur fylgst með málinu í dag. Hann sagði í kvöldfréttum sjónvarps að algjör leynd ríkti yfir fundinum, þó hafi fréttastofa heimildir fyrir því að eitthvað nýtt hafi verið lagt á borðið. Þess vegna hafi verið boðað til fundarins.

Stjórnendur Icelandair tilkynntu í gær að þeir hefðu slitið viðræðum við Flugfreyjufélag Íslands um nýjan kjarasamning og sagt upp öllum flugfreyjum og flugþjónum. Jafnframt sögðust þeir ætla að ganga frá kjarasamingi við annan viðsemjanda en Flugfreyjufélagið. Ekkert var þó gefið upp um hver það væri. Forsvarsmenn Icelandair sögðu að ekki yrði lengra komist í viðræðum við Flugfreyjufélagið.

Forsvarsmenn Flugfreyjufélagsins og fleiri stéttarfélaga brugðust ókvæða við tilkynningu Icelandair. Stjórn og trúnaðarráð Flugfreyjufélagsins ákváðu í gær að boða til atkvæðagreiðslu um allsherjarvinnustöðvun hjá Icelandair. Slíkt verkfall myndi ekki hefjast fyrr en eftir að Icelandair ætlar að láta flugfreyjur láta af störfum en formaður Flugfreyjufélagsins sagði að félagið myndi njóta samstöðu Alþýðusambands Íslands og alþjóðlegra verkalýðssamtaka í verkfalli.

Fréttin var uppfærð 19:19.