Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vonar að hundar verði áfram velkomnir á hótel

Mynd með færslu
 Mynd: Matthew Henry - burst.shopify.com/Creative commo
Brögð hafa verið að því að hundaeigendur, sem gista með hunda sína á hóteli, fari ekki eftir þeim reglum sem gilda um slíkar heimsóknir. Freyja Kristinsdóttir formaður Félags ábyrgra hundaeiganda segir brýnt að reglur hótelanna séu virtar, um sé að ræða mikið hagsmunamál fyrir hundaeigendur.

Fjöldi hótela víðs vegar um landið býður nú hunda velkomna, sem er breyting frá því sem verið hefur, en hótelgistingar hunda eru háðar undanþágu frá reglugerð um hollustuhætti. Yfirleitt þarf að greiða 1.500 - 3.000 aukagjald á nótt fyrir hvern hund og tilkynna þarf hótelinu um að hundur sé með í för. Fólk með hund gistir í sérstökum herbergjum og hundarnir mega ekki vera á almenningssvæðum hótelanna. Þá áskilja hótelin sér rétt til að vísa háværum hundum og eigendum þeirra á dyr.

„Við höfum fengið fregnir af nokkrum dæmum þar sem hundaeigendur hafa ekki verið að standa sig nógu vel í að fara eftir reglum sem hótel- og gistiaðilar hafa sett sem skilyrði fyrir því að leyfa fjórfætlingunum að vera með okkur á gististöðum,“ segir Freyja.

„Við höfum til dæmis heyrt af því að fólk sé að sleppa hundum lausum á lóðir hótela, að fólk mæti með hund án þess að láta vita af því fyrirfram og þá fréttum við af tilviki þar sem hundur vældi og gelti inni á hótelherbergi á meðan eigendur hans voru í burtu af hótelinu. Auðvitað vonum við hjá félaginu að þetta séu undantekningarnar en ekki reglan, en viljum samt brýna fyrir hundaeigendum að fara eftir reglum.“

Hún segir að þetta fyrirkomulag skipti marga hundaeigendur miklu máli. Hingað til hafi þeir ekki getað ferðast um landið með hunda sína nema eiga eigin sumarbústað, ferðavagn eða tjald. „Það er gaman, bæði fyrir fólk og hunda að ferðast saman um landið. Vonandi er þetta komið til að vera.“ 

 

 

 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir