
Vindur hvass og hviðóttur fram eftir kvöldi
Arnór Tumi Jóhannsson, vakthafandi veðurfræðingur, segir spá Veðurstofunnar vera að ganga nokkuð vel eftir og að mikil úrkoma á þessum slóðum sé helsta áhyggjuefnið.
Á Flateyri hafa fallið yfir 25 mm síðustu sex tímana og á Siglufirði hafa 34 mm fallið á sama tíma.
Ár hafa víða bólgnað í dag og varað hefur verið við skriðuhættu á Vestfjörðum, m.a. á Suðureyri.
Eitthvað hefur dregið úr vindi, til að mynda á Snæfellsnesinu, en áfram verður allhvass og hviðóttur vindur á Vestfjörðum og landinu norðvestanverðu og segir Arnór Tumi að gera megi ráð fyrir hviðum yfir 25 m/s.
„Það fer ekkert mikið að draga úr vindi á vestanverðu landinu fyrr en eftir hádegi á morgun,“ segir hann og kveður þá byrja að draga hægt og rólega úr vindi á þeim slóðum. Þá muni hins vegar hvessa á austanverðu landinu og er raunar þegar farið að hvessa á landinu suðaustanverðu, en að sögn Arnórs Tuma kann vindur að ná allt að 13-20 m/s á þessum slóðum.