Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Vilja að ráðherra banni verkfallsbrot Herjólfs

Mynd með færslu
 Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir - RÚV
Sjómannafélag Íslands krefst þess að ráðherra, ríkisstjórn og þingmenn banni stjórnendum Herjólfs að nota skip og hafnaraðstöðu í ríkiseigu til verkfallsbrota. Þetta kemur fram í opnu bréf til samgönguráðherra sem sjómannafélagið sendi frá sér nú síðdegis.

Þar segir að Herjólfur hafi verið mannaður verkfallsbrjótum í siglingum ferjunnar miðvikudaginn 15. júní. „Útgerð Herjólfs ohf. í eigu Vestmannaeyjabæjar notar eigur ríkisins til verkfallsbrota og beitir launafólk lögleysu og ofríki,“ segir í bréfinu.

Hið opinbera hlutafélag hafi brotið grunnréttindi launafólks og lög um vinnudeilur og um sé að ræða „eina alvarlegustu árás sem gerð hefur verið á réttindi íslensks launafólks.“

Fer sjómannafélagið því fram á að Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra upplýsi um samning ríkisins við Vestmannaeyjabæ um leigu á skipunum. „Getur bærinn nýtt og notað skipin án skilyrða? Er tryggt að íslensk lög og reglur um réttindi launafólks séu tryggð í leigusamningi? Er mönnum frjálst að nota ríkiseigur til lögbrota?“ er spurt í bréfinu og bent á að félagsdómur hafi dæmt verkfallið löglegt.

Bæjaryfirvöld í Eyjum viðhafi hins vegar vinnubrögð sem ekki hafi þekkst frá því lög um vinnustöðvanir voru sett árið 1938. Slegið hafi verið á útrétta sáttarhönd Sjómannafélagsins og þess í stað dreif hið opinbera hlutafélag slúðursögum um ofurkröfur og ofurkjör.

Hið rétta sé að vinnuskylda skipverja Herjólfs sé frá því hálfsjö að morgni fram til hálftvö að nóttu og vinnutíminn því að tveimur þremur hlutum utan dagvinnutíma. Aukinheldur sé skipverjum gert að vinna þrjár helgar í mánuði og alla hátíðsdaga. „Bæjaryfirvöld í Eyjum neita að fylgja fordæmi Eimskips og Samskips og fjölga þernum úr 3 í 5 vegna álags yfir hásumarið. Fyrir þetta fær fólkið 720 þúsund fyrir 190 vinnustundir á mánuði. Sætta ráðherrar og þingmenn sig við svona kjör og svona vinnutíma?“ segir í bréfinu.