Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Viðbragðssveitir í startholunum vegna vatnavaxta

17.07.2020 - 12:05
Mynd með færslu
 Mynd: Tjaldsvæðið Tungudal
Viðbragðssveitir víða á Norður- og Vesturlandi eru í startholunum vegna vatnavaxta. Vegurinn upp á Bolafjall við Bolungarvík er lokaður eftir aurskriðu í gærkvöld. Þá varð minniháttar grjóthrun á Siglufjarðarvegi snemma í morgun.

Appelsínugul viðvörun vegna úrkomu

Hellidemba er vestur á fjörðum þar sem appelsínugul viðvörun er í gildi vegna úrkomu. Vatn rennur yfir veginn við Laugar í Súgandafirði og búið er að loka veginum frá Suðureyri út í Staðardal. Að sögn Vegagerðarinnar þar er nú reynt að beina vatninu í niðurföll. Skriða féll á veginn upp á Bolafjall við Bolungarvík í gær og hann er því lokaður. Það snjóar í fjöllum fyrir vestan og krapi er á Hrafnseyrarheiði.

Starfsmenn bæjarins á vakt á Siglufirði í nótt

Talsvert hefur rignt á Siglufirði síðasta sólarhring en ekkert meiriháttar tjón orðið enn. Ármann Viðar Sigurðsson, deildarstjóri umhverfis- og tæknideildar, segir í samtali við fréttastofu að þar á bæ hafi starfsmenn bæjarins verið á vakt í nótt með dælubíl tiltækan. Enn sé þó allt með kyrrum kjörum.

Grjót féll á Siglufjarðarveg

Ingvar Erlingsson, varðstjóri hjá Slökkviliðinu á Siglufirði, og björgunarsveitarmaður, segir í samtali við fréttastofu björgunarsveitin Strákar sé í startholunum. Hún hafi ekki enn verið kölluð út en búast mætti við verkefnum þegar líða tekur á daginn. Vegagerðin  fylgist áfram grannt með stöðunni og þá sérstaklega Siglufjarðarvegi. Þar féll grjót á veginn í nótt sem búið er að hreinsa. Skúli Halldórsson er verkstjóri hjá Vegagerðinni.

„Staðan er þannig að það er alveg ausandi úrhelli og svolítill vindur en ekkert hvasst. en það hefur ekkert gerst nema hrunið svona einn og einn steinn í Mánaskriðum og í kringum Strákagöng,“ segir Skúli. 

Hafið þið einhverjar sérstakar áhyggjur af stöðunni?

„Nei eða sko maður veit aldrei hvað getur gerst.  En auðvitað erum við svona kannski aðeins áhyggjufullir að það geti hrunið eitthvað meira og við verðum að verðum að vakta þetta.“