Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Varasamt að ferðast með tengivagna í dag

17.07.2020 - 11:12
17. júlí 2020
 Mynd: Aðsend mynd
Vegagerðin minnir ferðalanga á að varasamt er að ferðast með tengivagna á Kjalarnesi, víða á Suðurlandi og Vesfjörðum og Vesturlandi. Áframhaldandi hvassviðri er á landinu fram á kvöld. Þá helst á Vestfjörðum, Vesturlandi og Suðurlandi.

Umferðaróhapp varð í dag rétt fyrir klukkan tíu þegar bíll með hjólhýsi fauk út af á veginum undir Ingólfsfjalli. Afar hvasst er á staðnum. Tengivagn fauk einnig út af um hádegisbil í gær í umdæminu. Enginn slasaðist.  Rúður brotnuðu einnig í bíl á ferð fyrir austan Hornafjörð í gær.

Engin önnur umferðaróhöpp höfðu orðið í dag á Suðurlandi þegar fréttastofa hafði samband við lögreglu.

Á Suðurnesjum fuku lausamunir í umdæminu í nótt og morgun. Lögregla biðlar til fólks að festa trampolín og aðra hluti sem geta tekist á loft.

Uppfært 12:04 - Upphaflega var sagt að fellihýsið á meðfylgjandi mynd hefði fokið út af undir Ingólfsfjalli í gær. Rétt er að það gerðist um klukkan tíu í morgun.