Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Þetta er félaginu til skammar“

17.07.2020 - 15:53
Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon
Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, segir að ákvörðun Icelandair um að slíta viðræðum um kjarasamning, fyrirvaralaust og einhliða, sé mikil vonbrigði og fyrirtækinu til skammar. Þetta setji Flugfreyjufélagið í þá stöðu að þurfa að undirbúa verkfallsaðgerðir. Guðlaug Líney segir að félagið muni grípa til allra þeirra ráðastafana sem þörf krefur.

Stjórnendur Icelandair tilkynntu upp úr hádegi að þeir teldu að ekki yrði lengra komist í samningaviðræðum við Flugfreyjufélag Íslands. Því væri viðræðum rift, öllum flugfreyjum og flugþjónum sagt upp og leitað yrði eftir samningum við annan ótilgreindan viðsemjanda.

„Það eru fyrst og fremst vonbrigði að Icelandair ætlist til þess að samstarfsmenn okkar, flugmenn, gangi í okkar störf. Ég neita að trúa því og það er eitthvað sem við þurfum að taka á ef að verður,“ segir Guðlaug Líney um þá ákvörðun Icelandair að láta flugmenn verða öryggisliða um borð í flugvélum tímabundið. Það hlutverk hafa flugfreyjur og flugþjónar farið með.

Flugfreyjufélag Íslands er nú knúið til að undirbúa verkfallsaðgerðir segir Guðlaug. „Við erum aðilar í Alþýðusambandi Íslands og alþjóðlegum verkalýðssamtökum. Við höfum fullan stuðning þar og munum kalla eftir stuðningi í verki.“ Hún segir ekki ósennilegt að reyni á aðgerðir erlendis ef á reynir.

„Þetta er félaginu til skammar, að ætla að fara í þessa aðför gegn stétt flugfreyja og þjóna á Ísland,“ segir Guðlaug. „Félagið hefur notið stuðnings frá ríkinu, beins fjárstuðnings. Ég geri ráð fyrir því að þetta endi á borði ríkisstjórnarinnar og ætlast til þess að það verði staðið við bakið á launþegum Íslands, að þetta verði ekki liðið.“

Lögfræðingar Flugfreyjufélags Íslands og Alþýðusambands Íslands fara yfir lögmæti og hugsanleg viðbrögð. „Fyrst og fremst er þetta siðlaust en við leitum allra leiða sem við getum farið í þessu máli,“ segir formaður Flugfreyjufélagsins.

„Það er fásinna að við höfum ekki gefið eftir jafn mikið og önnur félög,“ segir Guðlaug. Hún segir að í eðlilegu árferði og eins og viðgengist hafi í kjarasamningum hérlendis hafi felling kjarasamning orðið til þess að samningaviðræðum var haldið áfram. Hún segir óskiljanlegt að Icelandair hafi farið þessa leið.