„Það urðu allir lækir að beljandi stórfljótum“

17.07.2020 - 19:58
Mynd: Axel Rodriguez Överby / Aðsend
Á Vestfjörðum hefur verið úrhelli og aftakaveður. Loka þurfti sundlauginni á Suðureyri vegna vatnstjóns og rennsli í ám hefur sjaldan eða aldrei verið meira.

Ekkert lát er á steypiregninu á Vestfjarðakjálka. Á norðanverðum Vestfjörðum mældist yfir 90 mm úrkoma á sólarhring. Búast má við því að hún verði enn meiri þar sem ekki á að stytta upp fyrr en seinnipartinn á morgun.

Miklir vatnavextir og flæddi yfir veg

Það flæddi yfir veg í Súgandafirði og loka þurfti vegi frá Suðureyri yfir í Staðardal. Vatnsrennsli í Þverá í Ísafjarðardjúpi tvöfaldaðist og Hvalá í Ófeigsfirði hefur ekki verið jafn vatnsmikil í tíu ár. Vitað er til göngufólks víða á Hornströndum en það er allt talið óhult.

Grjóthrun varð við vegi norður á Ströndum og skriður féllu einnig á veginn upp á Bolafjall við Bolungarvík og fyrir ofan Hjallaveg á Ísafirði en engin hætta stafaði af þeim. Þá leitaði sauðfé sér skjóls inni í Vestfjarðagöngum.

Sundlaug lokar vegna vatnstjóns

Á Suðureyri voru fimm hús í hættu en þó þótti ekki ástæða til að rýma þau. Vatn flæddi þar ofan úr fjallshlíðinni og í sundlaugina sem varð að loka.

„Það urðu allir lækir að beljandi stórfljótum og frárennslisskurðir yfirfylltust og vatnssæginn dreifðist bara niður hlíðina og yfri bæinn og svo bara í gegnum sundlaugargarðinn, í sundlaugina og inn í bygginguna og inn í hús,“ segir Axel Rodriguez Överby, sviðsstjóri eignarsviðs Ísafjarðarbæjar. Hann telur tjónið hlaupa á milljónum og segir þetta ekki hafa gerst áður.

„Ekki í þessu mæli, nei. Það hafa komið smærri flóð en ekki í þessu umfangi.“

Rjúfa þurfti veg á tjaldsvæðinu á Ísafirði

Á tjaldstæðinu í Tungudal á Ísafirði flæddi Buná yfir bakka sína og fjarlægja varð bæði göngubrú og rjúfa veginn til að beina ánni aftur í réttan farveg. Gautur Ívar Halldórsson, umsjónarmaður tjaldstæðisins segir að þó nokkuð var af fólki sem gisti á tjaldstæðinu.

„Já, kannski fimmtán, sextán einingar. Við létum alla færa bílana sína réttum megin við ána og allir húsbílar fóru þeim megin. Fimm hjólhýsi urðu eftir á svæðinu.“

Viðgerðir hefjast á tjaldstæðinu um leið og veðri slotar. Gautur vonar að það verði opnað að nýju eftir helgi.

elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi