Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Snjór á Ströndum – „Fólkið hérna kann á þetta“

17.07.2020 - 10:31
Mynd með færslu
 Mynd: Elin Agla Briem
„Maður verður hundblautur ef maður hleypur aðeins út,“ segir Jón Guðbjörn Guðjónsson, veðurathugunarmaður í Litlu-Ávík, austast í Trékyllisvík í Árneshreppi. Í hreppnum er enn mikið hvassviðri, ausandi rigning og miklir vatnavextir. Heimamenn hafa ráðið aðkomufólki frá göngum og jafnvel ráðlagt þeim að forða sér úr hreppnum. Reynir Traustason segist ekki muna eftir öðru eins veðri á svæðinu og segir að nú sé byrjað að snjóa.

Jón er fæddur og uppalinn í Árneshreppi og hefur sinnt þar veðurathugunum frá árinu 1995. Hann segir að í nótt hafi rignt tæpa 22 millimetra og 26 í fyrrinótt. „Ég horfi hérna yfir ána, hún er farin að stækka mikið,“ segir hann. Jón segist ekki hafa heyrt af skriðum,„en það er sennilega enginn á leiðinni hingað norður í svona veðri“.

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Guðbjörn Guðjónsson
Veðurathugun í Litlu-Ávík - Jón Guðbjörn Guðjónsson
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Guðbjörn Guðjónsson
Ljósmynd: Jón Guðbjörn Guðjónsson

Skriður helsta áhyggjuefnið

Elín Agla Briem er þjóðmenningarbóndi í Norðurfirði. „Ég sit bara inni með útsýni yfir Norðurfjarðarhöfn, það er enginn á ferli,“ segir hún í samtali við fréttastofu. Hún segist horfa yfir hlíðarnar á Krossnesfjalli þar sem „nýjar ár spretta fram, hvítfyssandi“. Elín segist aðallega hafa áhyggjur af skriðum á veginum og vonar að enginn leggi leið sína í hreppinn á meðan á óveðrinu stendur: „Ég myndi aldrei keyra þennan veg í þessu veðri,“ segir hún. 

Aðspurð hvort hún hafi heyrt af tjóni vegna veðursins segist Elín ekki vita til þess að neinar skemmdir eða tjón hafi orðið: „Fólk hérna kann á þetta.“

Mynd með færslu
 Mynd: Elin Agla Briem
Ljósmynd: Elín Agla Briem
Mynd með færslu
 Mynd: Elin Agla Briem
Ljósmynd: Elín Agla Briem

„Og svo er byrjað að snjóa“

Á Valgeirsstöðum í Norðurfirði er staddur Reynir Traustason ritstjóri og leiðsögumaður. Í samtali við fréttastofu segist hann ekki muna annað eins veður á svæðinu fyrr eða síðar. „Lækir hafa breyst í stórflóð og vindur náð upp í 40 m/s.“ Hann segir nokkurn fjölda hafa átt að koma í Norðurfjörð á ættarmót en nú hafi öllu verið aflýst. 

A-hýsið, eins konar fellihýsi, sem Reynir dvaldi í í nótt ásamt hundinum Tinna færðist fjóra til fimm metra. „A-hýsið er sennilega skemmt og lappirnar kengbognar,“ segir hann. Reynir segir sjóinn hvítfyssandi og að verst sé að komast ekki í sjóbað: „Ég fer venjulega í sjóbað á morgnana.“ 

Í færslu á Facebook nú rétt í þessu skrifar hann: „Enn gengur á með sama hrakviðrinu og húsið leikur á reiðiskjálfi með reglubundnu millibili. Sem betur fer er enginn annar á tjaldsvæðinu. Og svo er byrjað að snjóa.“

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Guðbjörn Guðjónsson
Ljósmynd: Jón Guðbjörn Guðjónsson