Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segja upp öllum flugfreyjum og slíta viðræðum

17.07.2020 - 13:43
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon
Stjórnendur Icelandair hafa ákveðið að hætta viðræðum við Flugfreyjufélag Íslands og leita eftir samningum við „annan samningsaðila á hinum íslenska vinnumarkaði, um framtíðarkjör öryggis- og þjónustuliða hjá félaginu,“ eins og það er orðað í fréttatilkynningu frá flugfélaginu. Öllum flugfreyjum og flugþjónum verður sagt upp. Þess í stað eiga flugmenn að taka að sér störf öryggisliða um borð tímabundið.

Félagsmenn í Flugfreyjufélagi Íslands felldu nýlega kjarasamning við Icelandair. Meðan á viðræðum stóð hafði heyrst sá orðrómur að Icelandair íhugaði að semja við annað stéttarfélag, sem Icelandair bar þá til baka.

Flugmenn verða öryggisliðar tímabundið

Í tilkynningu Icelandair segir að mat félagsins sé það að ekki verði lengra komist í viðræðum við Flugfreyjufélag Íslands og þeim hafi því verið slitið. Félagið hyggst jafnframt segja upp flugfreyjum og flugþjónum sem starfa hjá Icelandair. „Flugmenn félagsins munu frá og með mánudeginum 20. júlí starfa tímabundið sem öryggisliðar um borð. Þjónustustig um borð í vélum Icelandair mun áfram taka mið af þeim ráðstöfunum sem gerðar hafa verið vegna COVID-19 og verður því í lágmarki. Félagið gerir ráð fyrir að hefja viðræður við annan samningsaðila á hinum íslenska vinnumarkaði, um framtíðarkjör öryggis- og þjónustuliða hjá félaginu.“

Vonar að félögin sýni ábyrgð og semji

Jón Þór Þorvaldsson formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna segir að fulltrúar félagsins hafi verið kallað til fundar við Icelandair í morgun og sagt að til þess gæti komið að þeir yrðu öryggisliðar um borð í flugvélum. Hann segir að samkvæmt loftferðalögum beri flugmenn ábyrgð á öryggi um borð. Hann segist innilega vona að Icelandair og Flugfreyjufélagið nái saman, sýni ábyrgð og semji. 

Ekki hefur náðst í Guðlaugu Líneyju Jóhannsdóttur, formann Flugfreyjufélags Íslands. 

Tíminn á þrotum

Í tilkynningu Icelandair er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair, að félagið hafi lagt allt kapp á að ná samningum við Flugfreyjufélagið. Hann segir að í nýfelldum kjarasamningi hafi verið gengið eins langt og mögulegt hafi verið til að koma til móts við samninganefnd Flugfreyjufélags Íslands. „Tíminn er á þrotum og við neyðumst til að leita annarra leiða. Þessi ákvörðun er mér afar þungbær en nauðsynleg þar sem ljóst er að samtalið milli félaganna tveggja fer ekki lengra.  Það hvílir mikil ábyrgð á okkur sem stjórnum félaginu að tryggja rekstur þess til framtíðar og því miður sjáum við ekki annan kost í stöðunni en að fara þessa leið. Það er sárt að vera í þessari stöðu gagnvart afburðasamstarfsfólki sem hefur staðið vaktina með félaginu til fjölda ára, svo eftir hefur verið tekið.“

Bréf til flugfreyja og flugþjóna

Bogi sendi flugfreyjum og flugþjónum bréf síðdegis þar sem hann sagði að sé þætti afar þungbært að tilkynna þeim að samningaviðræðum við Flugfreyjufélag Íslands hefði verið slitið. Hann segir að reynt hafi verið að bregðast við breyttum aðstæðum í alþjóðaflugi í samningum við starfsfólk fyrirtækisins. „Skýrt hefur komið fram hjá forsvarsmönnum FFÍ að Icelandair hafi gengið of langt í hagræðingarkröfum og þurfi að gefa þær eftir. Staðreyndin er þó sú að félagið hefur ekki svigrúm til að gefa meira eftir og því þjóna frekari fundarhöld milli aðila ekki tilgangi. Niðurstaða kosningar um þann samning sem lagður var fyrir í lok júní gefur til kynna að meirihluti félagsmanna FFÍ er ekki tilbúinn í þær breytingar sem nauðsynlegar eru.“

„Viðræður eru komnar í hnút og því miður hafa rangfærslur um vinnubrögð samninganefndar Icelandair haft áhrif á ferlið og ekki síst bréf formanns FFÍ til félagsmanna á upphafsdegi kosninga um undirritaðan samning,“ segir Bogi í bréfinu. „Það eru nokkur atriði sem mig langar til að koma á hreint varðandi þessar rangærslur. Í fyrsta lagi var engu lætt inn á lokametrunum. Í öðru lagi hafnaði samninganefnd Icelandair því ekki að gera leiðréttingar heldur var þeirri beiðni hafnað að gera efnislegar breytingar sem hefðu haft veruleg áhrif á heildarniðurstöðu samningsins. Þau tvö atriði sem hafa verið til umræðu voru margoft rædd á fundum í formlegu ferli hjá Ríkissáttasemjara og auðveldlega er hægt að rekja.“

Bogi tilkynnti flugfreyjum og flugþjónum í bréfinu að þeim yrði sagt upp þar sem viðræðum hefði verið slitið og að flugmenn yrðu öryggisliðar tímabundið frá og með mánudegi. Hann sagði þar jafnframt Icelandair geri ráð fyrir að hefja viðræður við annan samningsaðila á íslenskum vinnumarkaði, um framtíðarkjör öryggis- og þjónustuliða hjá félaginu. eins og það er orðað. „Það er ömurlegt að vera í þessari stöðu gagnvart ykkur. Mörg ykkar þekki ég vel og mörg hafið þið verið hjá félaginu til fjölda ára, áður en ég kom til starfa. Öll hafið þið staðið vaktina svo eftir hefur verið tekið um allan heim. En tíminn er á þrotum og við erum uppi við vegg. Þetta er sársaukafull ákvörðun sem er þó nauðsynleg til að reyna að bjarga félaginu frá falli.“

Fréttin var uppfærð 14:05.