Reglur hertar í Ísrael vegna kórónuveirunnar

17.07.2020 - 14:45
epa08549805 Ultra-Orthodox Jews wearing protective face masks pass at the blocked ultra-Orthodox neighborhood of Romama in Jerusalem, Israel,16 July 2020. The media report that Israeli government might announce lockdown in the country over the weekend as  Israel faces an increase in the number of people infected with the SARS-CoV-2 coronavirus. Israeli Police have increased enforcement significantly on government restrictions and closed some neighborhoods in various cities in order to prevent the spread of the SARS-CoV-2 coronavirus which causes the Covid-19 disease.  EPA-EFE/ATEF SAFADI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Stjórnvöld í Ísrael gripu í dag til hertra aðgerða til að draga úr vaxandi kórónuveirusmiti í landinu. Verslunum, stórmörkuðum og fleiri stöðum þar sem fólk safnast saman verður lokað frá klukkan fimm á föstudögum til fimm á sunnudagsmorgnum. Þá verður líkamsræktarstöðvum lokað og veitingahús geta einungis afgreitt mat sem fólk tekur með sér.

Auk þessa verður sundlaugum, dýragörðum og söfnum lokað, þar á meðal bókasöfnum. Sömuleiðis vinsælum ferðamannastöðum. Matvöruverslanir, gleraugnaverslanir og apótek verða opin. Baðstrendur verða lokaðar um helgar frá 24. júlí.

Fólki er ekki skipað að halda sig heima, en ekki mega fleiri en tíu safnast saman á lokuðum svæðum og tuttugu úti. Helmingur starfsliðs á opinberum skrifstofum á að vinna heima eða verður sendur í frí.

Þessar takmarkanir verða í gildi þar til annað verður ákveðið, segir í tilkynningu frá forsætis- og heilbrigðisráðuneyti landsins. Ísraelskir fjölmiðlar hafa eftir Benjamín Netanyahu forsætisráðherra að svo kunni að fara að setja þurfi strangari reglur ef þær sem kynntar voru í dag duga ekki til að draga úr veirusmitum í landinu.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi