Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Óttast að skriður falli á Siglufirði og Ólafsfirði

17.07.2020 - 20:05
Mynd: Ingvar Erlingsson / Ingvar Erlingsson
Miklir vatnavextir eru í norðan rigningarveðri á Norðurlandi og viðbragðssveitir hafa í nægu að snúast. Vel er fylgst með holræsakerfinu á Siglufirði og óttast er að skriður geti fallið á Tröllaskaga.

Mikið úrhelli var á Siglufirði í gærkvöldi og nótt. Það rignir heldur minna þar í dag en þó er enn ausandi rigning. Ár og lækir eru eins og stórfljót og mikið álag er á holræsakerfið en þar hefur oft flætt upp úr niðurföllum húsa í vatnavöxtum. Það gerðist ekki í dag, kerfið hefur haft undan og vatni verið dælt upp úr holræsum með nýjum búnaði sem tekinn var í notkun fyrr á árinu.

Hræddastur við skriðuföll ef rignir lengi

„Það eina sem maður er kannski hræddastur við núna það eru skriðuföll og grjóthrun, hér í Almenningnum og fyrir ofan bæina bæði Siglufjörð og Ólafsfjörð. En ég hef ekki heyrt af neinu enn sem komið er allavega, segir Ármann Viðar Sigurðsson, deildarstjóri tæknideildar Fjallabyggðar. En hann telur byggð ekki í hættu. „Snjóflóðavarnargarðarnir hér við Siglufjörð þeir myndu taka skriður ef það er það kæmi úr fjallinu hér.“

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Mikil skriðuhætta er á Siglufjarðarvegi

Grjóthrun á Siglufjarðarvegi

Vegagerðin fylgist grannt með Siglufjarðarvegi en þar varð grjóthrun í nótt og það hefur þurft að hreinsa hann í dag. Þarna er mikil skriðuhætta og fylgst vel með þar sem vegurinn hefur sigið síðustu ár. Það hefur hvergi orðið meiriháttar tjón á Norðurlandi en vatnið er mest til vandræða yst á Tröllaskaga.

Neyðast til að spila næsta heimaleik á Dalvík

Það verður varla spilað golf á Siglufirði fyrr en styttir upp, en mikið vatn er á golfvellinum þar. Þá áttu knattspyrnulið KF og Hauka að spila leik á Ólafsfirði í dag, en völlurinn þar er á kafi og leikurinn því færður til Dalvíkur. Halldór Ingvar Guðmundsson, vallarstjóri og leikmaður KF er ekki ánægður með þessa stöðu. Hann segir að vatn flæði ítrekað yfir völlinn í minnstu rigningum. „Að þurfa að spila heimaleik á Dalvík, það er ekki gott. En miðað við hvernig völlurinn er hér þá er bara ekkert annað í stöðunni.“