Litbrigði mannkyns til sálar og líkama

Mynd: Arnastofnun.is / Arnastofnun.is

Litbrigði mannkyns til sálar og líkama

17.07.2020 - 10:35

Höfundar

„Allt miðaði að því að tryggja erfðarétt, halda fengnum eignum og völdum innan ættar“ og því var nauðsynlegt að þekkja kyn sitt. Að gefnu og augljósu tilefni hefur Ragnheiður Gyða Jónsdóttir verið að hugleiða litbrigði mannkyns, til sálar og líkama, í Tengivagni Rásar 1.

Ragnheiður Gyða Jónsdóttir skrifar:

Upp til hópa eru þeir eyjarskeggjar hér norður undir pól, þeir sem eru af grjóthörðu og íslensku bergi brotnir, taldir komnir af frægustu landnámsmönnum eyjunnar, norrænum frá vesturströnd Noregs flestir og svo frá norræn-keltenskum byggðum á Bretlandseyjum og Írlandi.

Blóð Haukdæla rennur um æðar þessara eyjarskeggja, Oddaverja, Ásbirninga, Vatnsfirðinga, Haukdæla og Sturlunga. Segir fátt af því „óbreytta“ fólki sem fylgdi landnámshöfðingjunum til landsins, þrælum og ambáttum af mörkuðum viðkomustaða höfðingjanna á leið í skjólið. Hvað þá bændum og búaliði, fylgjendum stórhöfðingja Sturlungaaldar í sínum valda-, auðs- og erfðabarningi öllum.

Íslendingabók á sér langa sögu

Íslendingabók íslenskrar erfðagreiningar, ágæt og stórfróðleg, er öllum aðgengileg á netinu. Grunnur hennar er byggður á manntölunum 1703, 1801 og 1910, Þjóðskrá frá 1967 til þessa dags, öðrum manntölum, kirkjubókum, ættfræðiritum og öðrum ættfræðiupplýsingum.

Íslendingabók heitir auðvitað eftir bókinni sem Ketill Þorsteinsson Hólabiskup og Þorlákur Runólfsson Skálholtsbiskup pöntuðu hjá Ara fróða Þorgilssyni. Hann var á dögum á þeim herrans árum 1067-1148 og vel að sér í erlendum ættfræðiritum, til að mynda þeim sem stórættaðir Grikkir, Rómverjar, Arabar, Persar og ótal fleiri létu rita sér og sínum.

Talið er að hann hafi ritstýrt sinni Íslendingabók einhvern tíma á árunum 1122-1132 og borið undir áðurnefnda biskupa og Sæmund fróða Sigfússon í Odda. Í formála Íslendingabókar segir Ari fróði að þeim hafi líkað svo að hafa um sumt en aukið við annað. Hann hafi farið eftir þeirra ábendingum en það sem missagt sé í þessum skrifum hans þá sé skylt að hafa það heldur sem sannara reynist.

Nauðsynlegt að þekkja kyn sitt

Ari fróði skrifaði um meint landnámið 250-260 árum áður en hann var uppi og elsta handritið sem varðveist hefur er á pappír frá 17. öld. Ýmislegt gæti hafa talist „sannara“ á þeim tæpu sjö öldum sem liðu frá þeim tíma sem Ari skilaði sínu handriti.

Í svari við spurningunni „Til hvers tóku Íslendingar saman ættfræðirit á fyrri öldum?“ segir Guðrún Ása Grímsdóttir, fyrrverandi rannsóknarprófessor í íslenskum fræðum við Stofnun Árna Magnússonar í þeim sömu fræðum, meðal annars: „Í fornnorrænum samfélögum gegndi ættfræði ákveðnu hlutverki þar sem skylda hvers bjargálna manns var að framfæra ósjálfbjarga nákomna ættingja sína og hefna ættmenna sinna sem urðu vopndauðir. Og eftir því sem samfélög þróuðust og einstaklingar efldust að eignum og völdum var enn meiri nauðsyn að þekkja kyn sitt þegar velja skyldi saman mann og konu til hjúskapar eða skipta arfi.“

Allt miðaði að því að tryggja erfðarétt, halda fengnum eignum og völdum innan ættar. Síðar komu fram kirkjuréttarákvæði sem hindruðu skyldleikagiftingar og til þess að framfylgja lagaákvæðunum urðu kennimenn að sjá til þess að ekki væru meinbugir á fyrirhuguðu hjónabandi vegna skyldleika hjónaefna. Eignir, auður, völd, erfðir, hagsmunir, í skjóli frá skattheimtu Haraldar hárfagra eða lúfu, í skattaskjóli sumsé. Hringir það einhverjum bjöllum hjá nútíma íslenskum fölbleikum, ef ekki undanrennubláum bergrisum? 

Komst snemma í Íslendingabók Ara fróða

Snorri Sturluson er sagður fæddur árið 1179 vestur í Hvammi í Dölum, 31 ári eftir að Ari fróði lést. Meintar sættir í Deildartungumálum, einum af forleikjum Sturlungaaldar, urðu til þess að Snorri litli var á þriðja ári sendur í fóstur til Jóns Loftssonar, goðorðsmanns í menntasetrinu í Odda á Rangárvöllum.

Læs hefur hann sjálfsagt komist í Íslendingabók Ara fróða en hann las og lærði ýmislegt fleira, meðal annars frá fjarlægum löndum. Fornir Rómverjar skráðu ættartölur mikilla höfðingja, þeim til frekari göfgunar en ekki síst til að reikna erfðarétt hvers ættliðar.

Ekki er vitað hvort Snorri var mikill latínumaður en ungur gæti hann hafa heillast af frásögnum prófessora í Odda af til dæmis goðsagnakenndri ættartölu Caesars. Gaius Iulius Caesar taldist kominn af Venusi, gyðju ástar, kynlífs, fegurðar, frjósemi, velsældar og sigra. Sonur hennar og Anchisesar, frænda og tengdasonar Príamosar Trójukóngs, Eneas slapp úr umsátrinu við Tróju með son sinn, sveik Dídó Karþagódrottningu í Túnis og komust feðgarnir að lokum til Alba Longa á Ítalíu að leggja drög að Caesari.

Kringla heimsins mjög vogskorin

Ekki verður farið út í valdabrölt Snorra hér um þúsund árum síðar. Árin 1220-1223 bjó hann í Stafholti á meðan unnið var að enduruppbyggingu í Reykholti í Borgarfirði, staðurinn gerður að miðstöð kirkju og lærdóms og virki utan um allt saman.

Á glænýju ritloftinu í Reykholti hefur hann ef til vill þrumað Heimskringlu sína yfir ritarafjölda sínum, þar á meðal Ynglingasögu. Hann segir kringlu heimsins, þá er mannfólkið byggir, mjög vogskorna. Stór höf úr útsjánum gangi inn í jörðina; eitt frá Njörvasundum, Gíbraltarsundi, til Jórsalalands og annað af því hafi til landnorðurs, Svartahaf.

Norðan Svartahafs liggur Svíðþjóð hin mikla eða kalda

Það skilji að heimsþriðjungana; austan hafsins sé Asía, vestan þess Evrópa eða Eneá eftir áðurnefndum Eneasi. Norðan Svartahafs sé svo Svíþjóð hin mikla eða kalda. Ekki sú Svíþjóð sem við þekkjum heldur Skýþía mikla í sunnanverðu Rússlandi og þaðan í austur. Menn segi hana ekki minni en Serkland hið mikla, lönd Mára í norður-Afríku og hugsanlega í vestur Asíu, eftir trúboð múslima af Arabíuskaga í allar áttir, líka í vestur, að spámanni þeirra látnum árið 632 að okkar tímatali.

Að auki segir Snorri frá Blálandi hinu mikla í Afríku auk tveggja annarra Blálanda þar. Að sögn Snorra fellur á mikil úr fjöllunum  norður í óbyggðum Svíþjóðar hinnar miklu og heitir hún Tanaís, Tana- eða Vanakvísl, og til sjávar í Svartahafi. Telja menn Tanaís fimmtu lengstu á í Evrópu, sjálfa Don.

Nafn Óðins yrði haft uppi og tignað um fram alla konunga

Austan hennar segir Snorri Ásaland eða Ásaheim, þar sé höfuðstaðurinn Ásgarður, blótstaður mikill. Höfðingi borgarinnar hafi verið Óðinn, hermaður mikill, víðförull og eignast mörg ríki. Þeir sem kunna sína Iljónskviðu muna kannski eftir vöskum Eþíópíukóngi, Memnon. Hann gekk til liðs við Príam Trójukóng með mikinn her landa sinna og Indverja, og dúkkar upp í fleiri fornum ritum en Hómerskviðum.

Snorri okkar hefur haft pata af málum Eþíópíukóngs, í prólógus Eddu sinnar segir hann Múnón eða Mennón tengdason Príams, og þá konungsdóttur Tróán að nafni. Ekki finnst hún í fljótu bragði meðal barnaskara Príamskóngs tíunduðum á fjölda netsíðna. En sagan er góð, ekki síst þegar sonar þeirra Memnóns er getið.

Að sögn Snorra hét gullinhært ofurmennið Trór, við köllum hann Þór. Á ferðum sínum um heiminn hitti hann spákonu, Síbil, hana köllum við Sif. Síbillur voru að sönnu spákonur fornra og hundheiðinna Grikkja og Rómverja. Nítján kynslóðum síðar eða svo var einn afkomenda Þórs og Sifjar nefndur Vóden, við köllum hann Óðinn. Kona hans var Frígíðá, Frigg.

Véfréttin sagði þeim hjónum að nafn Óðins yrði uppi haft og tignað í norðurálfu um fram alla konunga. Því héldu hjónin frá Tyrklandi, ásamt fylgismönnum sínum fjölmörgum, dvöldu um hríð í Saxlandi í núverandi Þýskalandi austanverðu og voru synir þeirra settir yfir lönd þeirra þar þegar hjónin héldu enn norðar, gerðu sér bústað í núverandi Svíþjóð áður en þau héldu til núverandi Noregs.

Þessar frásagnir Snorra Sturlusonar eru forvitnilegar og skemmtilegar. Skyldi vera fótur fyrir þeim?

Tengdar fréttir

Pistlar

Að tala við geimverur

Íslenskt mál

Óstöðugleiki tungumála

Íslenskt mál

Að tala hægt og skýrt

Pistlar

Málið skiptir sköpum