Kolófært á Hornströndum en telja alla komna í var

17.07.2020 - 13:32
Mynd með færslu
 Mynd: Elin Agla Briem
Talið er að ferðalangar á Hornströndum séu allir komnir í var frá veðri. Flestir þeir sem ætluðu að fera á faraldsfæti á Vestfjörðum og Norðvesturlandi um helgina hafa afbókað eða endurskipulagt ferðir sínar.

Miklir vatnavextir og foráttuveður er á Hornströndum. Kristín Ósk Jónasdóttir er sérfræðingur hjá Hornstrandastofu Umhverfisstofnunar.

„Það er bara allt kolófært. Það eru náttúrulega gríðarlegir vatnavextir í ám og það er ekki hægt að fara um svæðið. Við vitum af fólki hér og þar innan friðlandsins sem heldur kyrru fyrir,“ segir hún.

Kristín segir að hópur fólks haldi við í heimskautatjaldi í Hornvík. Einn sé veðurtepptur í neyðarskýli í Hlöðuvík en sé vistaður til nokkurra daga. Þá hafa landvörður og hópur ferðalanga fengið inni í læknishúsinu á Hesteyri. Talið er að allir á Hornströndum séu komnir í var.

„Auðvitað gætu verið fleiri án þess að við vitum af því en við teljum okkur vita nokkuð hver staðan er.“

Ferðafólk endurskipuleggur og afbókar

Arinbjörn Bernharðsson rekur ferðaþjónustuna Urðartind í Árneshreppi á Ströndum. Hann segir að afbókanir um helgina hafi hrannast inn. Þetta hafi mikil áhrif á ferðamannatímabilið á Ströndum sem er þegar stutt.

„Það eru allir rekstraraðilar sem finna fyrir þessu. Veitingastaðir, verslun, sundlaugin og þeir sem rekagistingu og söfn líka,“ segir hann.

Þá hafa ferðafélög á Norðurlandi breytt áætlunum sínum vegna veðursins. Ferðafélag Akureyrar aflýsti göngu í Fossárdal í Ólafsfirði, sem var áætlun í morgun, og ólíklegt er að farið verði í göngu um Fljótsheiði á sunnudag. Gönguhópur sem gekk í Fjörður í gær kemur til baka í dag, degi fyrr en áætlað var. Fleiri ferðir voru áætlaðar í Fjörður um helgina, en falla niður.

elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi