Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Flugfreyjur greiða atkvæði um allsherjarvinnustöðvun

17.07.2020 - 18:34
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Stjórn og trúnaðarráð Flugfreyjufélags Íslands samþykkti á fundi sínum síðdegis að boða allsherjarvinnustöðvun hjá Icelandair ef félagsmenn samþykkja slíkt í atkvæðagreiðslu. Þannig bregst félagið við ákvörðun Icelandair að slíta samningaviðræðum, segja upp öllum flugfreyjum og flugþjónum, og boða viðræður um kjarasamninga við annað félag en Flugfreyjufélagið.

Stjórn og trúnaðarráð komu saman laust fyrir fimm og sat á fundi í hálftíma. Stjórn og trúnaðarráð samþykktu svohljóðandi tillögu: „Fundur stjórnar og trúnaðarráðs FFÍ, haldinn föstudaginn 17.7 2020 samþykkir að boða allsherjarvinnustöðvun félagsmanna hjá Icelandair ehf. Vinnustöðvunin verði ótímabundin og hefjist kl. 00:01 þriðjudaginn 4.8 2020 og tekur hún til allra starfa flugfreyja og flugþjóna um borð í flugvélum Icelandair ehf.“

Atkvæðagreiðslan á að hefjast klukkan tíu að morgni næsta föstudags og ljúka á hádegi mánudaginn eftir það. Atkvæðisrétt hafa allir félagsmenn Flugfreyjufélagsins sem Icelandair skilaði iðgjöldum af til Flugfreyjufélagsins í júní.

Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélagsins, sagði í viðtali við fréttastofu í dag að félagið væri knúið til að skoða verkfallsaðgerðir vegna ákvörðunar stjórnenda Icelandair. Aðspurður hvaða gildi það hefði í ljósi uppsagna sem tilkynntar voru í dag vísaði Guðlaug til stuðnings Alþýðusambands Íslands og alþjóðlegra verkalýðsfélaga. Þannig gæti áhrifa verkfallsins einnig gætt erlendis.