Fjórfaldur skolli á lokaholunni skemmdi fyrir Guðmundi

Mynd með færslu
 Mynd: Golf.is

Fjórfaldur skolli á lokaholunni skemmdi fyrir Guðmundi

17.07.2020 - 17:37
Haraldur Franklín Magnús og Guðmundur Ágúst Kristjánsson léku báðir á þriðja hring Euram Bank-mótsins í austurísku ölpunum í dag eftir að hafa komist í gegnum niðurskurð mótsins í gær. Mótið er hluti af Evrópumótaröð karla í golfi.

Guðmundur Ágúst, sem er Íslandsmeistari í golfi, var á sjö höggum undir pari fyrir þriðja hringinn í dag en hann lék á sex höggum yfir pari í dag. Munaði þar mest um fjórfaldan skolla á 18. holu sem er par 3 en Guðmundur lenti í basli á henni og lék á sjö höggum. 

Guðmundur féll því niður í 54. sæti en Haraldur Franklín lék á parinu í dag og er í 36. sæti á fjórum höggum undir pari. Haraldur fór illa út úr 14. holu vallarins þar sem hann fékk þrefaldan skolla. Hann fékk fugl á sömu holu á fyrsta hring mótsins. 

Hér má sjá stöðuna á mótinu.

Náttúruperla í ölpunum

Óhætt er að segja að völlurinn sem leikið er á um helgina, Adamstal-völlurinn í Austurríki, sé náttúruperla. Völlurinn er afar fallegur eins og sjá má á myndunum hér að neðan. 

Rosalegur hringur hjá efsta manni

Frakkinn Robin Sciot-Siegrist átti ótrúlegan hring í dag og lék á 61 höggi, eða níu undir pari vallarins. Hann er efstur fyrir lokahringinn með þriggja högga forskot á Englendinginn Richard Mansell.