Fimm firnafín á haustlegum föstudegi

Mynd með færslu
 Mynd:

Fimm firnafín á haustlegum föstudegi

17.07.2020 - 11:15

Höfundar

Haustið kemur óvenjusnemma í ár en við höfum þó alltaf tónlistina til að hugga okkur við á landinu kalda. Það er komið víða við í Fimmunni þennan föstudaginn eftir smá frí og boðið upp á heldur betur hressilega uppfærslu á lagalistanum sem var farinn að reskjast.

Michael Kiwanuka, Bonobo - Final Days

Eftir þriggja ára hlé hefur Bonobo loks gefið út annað endurhljóðblandað lag og sá sem fær heiðurinn er blús- og sálarhundurinn Michael Kiwanuka. Stílar þeirra falla hvor að öðrum eins og flís við rass þannig að Final Days af síðustu plötu Kiwanka hljómar eins og nýtt lag eftir yfirhalninguna.


James Blake - Are You Even Real

Blake-arinn er óvenjuhress í nýja laginu sínu Are You Even Real og jafnvel væri hægt að saka hann um að vera of aðgengilegan. Lagið er annar söngull hans á árinu en síðasta plata hans Assume Form fékk einróma regnbogaræpu einhyrndra gagnrýnenda.


Lianna La Havaz - Weird Fishes

Radiohead er ein besta hljómsveit heims (staðfest) og þrátt fyrir að marineraðir og dómgreindarskertir trúbadorar renni sér stundum í lögin þeirra með afar misjöfnum árangri er ekki algengt að ábreiður af lögum þeirra séu gefnar út. Lianna La Havaz er þess vegna nokkuð huguð að negla í Weird Fishes og gerir það barasta fantavel.


Idles- A Hymn

Það er óhætt að segja að haustdagur í miðjum júlí sé jafn óvæntur og ballaða frá Idles en þessi föstudagur er bara að gefa. Lagið Hymn er nú kannski ekki beinlínis Vetrarsól þriðji hluti en lagið er að finna á nýrri þröngskífu pönkarana í Idles sem eru að sigra Bretland þessa dagana.


Skegss - Under the Thunder

Áströlsku sörf-rokk prakkararnir í Skegss hafa sennilega ekki hugmynd um hvað hljómsveitanafnið þeirra er sjúklega gott á íslensku enda er það sennilega bara tilviljun. Under the Thunder er aftur á móti engin tilviljun heldur frábær stuðrokksslagari beint úr bílskúrnum og af gamla skólanum.


Fimman á Spottanum