Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ekki hægt að búa við þessa stöðu lengur

17.07.2020 - 15:17
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að samtökin standi með Icelandair að ákvörðun um að slíta viðræðum við Flugfreyjufélag Íslands og leita annað. Samtökin fóru með samningsrétt fyrir hönd Icelandair. Halldór Benjamín segir að sú leið sem var farin sé lögleg en að ef Flugfreyjufélag Íslands sætti sig ekki við hana getið það farið fyrir dómstóla með málið.

Halldór segir að viðræðurnar hafi verið mjög þungar. „Fyrsti valkostur Samtaka atvinnulífsins og Icelandair er alltaf sá að leita samninga. Við höfum verið í því fari síðustu vikur og misseri.“ Kjarasamningur Icelandair og Flugfreyjufélags var felldur. „Það er rétt sem haft hefur verið eftir forsvarsmönnum félagsins [Icelandair], lengra verður ekki komist að sinni. Samtök atvinnulífsins standa að sjálfsögðu með Icelandair og stjórnendum Icelandair í þessari vegferð.“

„Allar kjaradeilur eru einstakar í eðli sínu, þetta eru mismunandi hópar hverju sinni,“ segir Halldór Benjamín aðspurður hvort hann muni önnur dæmi þess að fyrirtæki segi upp viðræðum og leiti samninga hjá öðrum stéttarfélagi. Hann segir mest um vert að félagið hafi náð kjarasamningi við aðrar starfsstéttir sem hafi tekið á sig verulega skerðingu í kjörum svo Icelandair komist aftur á fætur. Það sama hafi stjórnendur gert. „Hins vegar er það svo að ekki hefur náðst saman við Flugfreyjufélagið og ekki er hægt að búa við þessa stöðu lengur. Þar af leiðandi er gripið til þessara aðgerða.“

„Við skulum sjá hverju fram vindur, við skulum ekki vera með miklar yfirlýsingar á fyrstu metrunum,“ segir Halldór aðspurður hvort að ákvörðun Icelandair geti haft víðtækari áhrif á íslenskum vinnumarkaði. „Við getum sagt að íslensk vinnulöggjöf er að mörgu leyti úr sér gengin og fyrir löngu kominn tími til að endurskoða hana, ekki bara að hluta eða í heild. Það getur verið að þessi deila komi til álita þar.“

Halldór Benjamín telur skýrt að Icelandair hafi mátt fara þessa leið að lögum. Hann segir það siðaðra manna hátt að leita fyrir dómstóla ef þeir deila um túlkun. Því verði unað ákveði Flugfreyjufélagið að gera slíkt.