Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ekki eins hátt hlutfall grenja í fimm ár

17.07.2020 - 14:13
Mynd með færslu
 Mynd: Náttúrufræðistofnun Íslands - Facebook
Í nýafstaðinni vettvangsferð Náttúrufræðistofnunar Íslands á Hornstrandir kom í ljós að ábúð og tímgun refa á Hornströndum er með besta móti, eða 40%. Flest óðul hafa stækkað og fæðuskilyrði eru góð.

Þann 23. júní var farið í ríflega tveggja vikna vettvangsferð til að kanna ábúð og ástand refa á norðaustursvæði Hornstranda. Heimsótt voru 30 þekkt greni í Hælavík, Rekavík bak Höfn, Hornvík og Látravík, og svokölluð útibú eða kot út frá nokkrum þeirra.

Ekki hefur verið eins hátt hlutfall grenja á því svæði frá árinu 2015 en enn hefur stofninn ekki náð sér frá því sem var fyrir hrunið árið 2014.

Þetta kemur fram á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Enn kemur á óvart hversu fá hvít dýr virðast þrífast á svæðinu en afföll hvítra yrðlinga virðast mun hærri en þeirra mórauðu. 

Árið lítur vel út fyrir refina

Af 30 þekktum óðulum voru níu í ábúð og sáust í þeim 40 yrðlingar eða að meðaltali 4,4 yrðlingar á hverju greni. Það er sama tala og meðalfjöldi veiddra yrðlinga á greni yfir landið í heild. Alls voru skráðar upplýsingar af 37 grenjum.

„Í lok sumars verður kannað hvernig yrðlingum frá sumrinu hefur reitt af. Ljóst er að fæðuskilyrði eru betri en á síðasta ári og flest óðul hafa stækkað svo meiri möguleikar eru fyrir foreldrana að afla fæðu en áður, þegar þrengra var um dýrin. Árið 2020 virðist á þessu stigi líta út fyrir að gott fyrir refina á Hornströndum,“ segir á vef stofnunarinnar.

Báru steinbít úr fjöru og upp á bjarg

Það sást til pars sem sást einnig til í síðustu vettvangsferð í mars, þegar þau báru steinbít alla leið frá fjöru og upp á bjarg. Þykir það þrekvirki sýna hversu hörð dýrin eru af sér og hversu mikið þau leggja á sig til að koma sér og sínum fyrir á góðum stað.

Leiðangursstjóri í ferðinni var Ester Rut Unnsteinsdóttir frá Náttúrufræðistofnun Íslands. Henni til aðstoðar voru Ingvi Stígsson, Birte Technau, Anni Malinen og Lucía Raba Tortosa.