Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Drífa Snædal segir Icelandair beita lúalegum brögðum

17.07.2020 - 14:19
Mynd: RÚV / RÚV
Drífa Snædal forseti ASÍ segir algerlega ótrúlegt að verða vitni að þessum vinnubrögðum Icelandair að segja öllum flugfreyjum upp og fá flugmenn til að sinna öryggisgæslu um borð frá og með næsta mánudegi.

Hún segir flugfreyjur hafa teygt sig mjög langt í samningaviðræðunum og verið í þeim af heilindum. Hún segir ákvörðun Icelandair blauta tusku í andlitið á flugfreyjum og starfsfólki á íslenskum vinnumarkaði. 

Hún segir að Icelandair ætli að fara í félagsleg undirboð og beita lúalegum brögðum til þess að lækka með handafli laun. 

Drífa segir að ASÍ ætli að velta við öllum steinum í þessu máli og standi þétt að baki Flugfreyjufélagi Íslands. ASÍ styðji félagið í öllum því sem það gerir og muni beita samtakamætti ASÍ til þess að þrýsta á að undið verði ofan af þessari ákvörðun. 

 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV