Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Borgnesingar líða ekki rasisma - Atli spilar ekki meira

Mynd með færslu
 Mynd: EPA

Borgnesingar líða ekki rasisma - Atli spilar ekki meira

17.07.2020 - 15:22
Stjórn knattspyrnudeildar Skallagríms ákvað á fundi sínum í dag að Atli Steinar Ingason, leikmaður liðsins, myndi ekki leika meira með Skallagrími á tímabilinu. Þar með gengur félagið lengra en aganefnd KSÍ sem hafði áður dæmt Atla í 5 leikja bann fyrir ummæli sem fólu í sér kynþáttaníð gegn leikmanni Berserkja í leik liðanna í Borgarnesi á dögunum.

 

Í yfirlýsingu frá stjórn knattspyrnudeildar Skallagríms í dag kemur fram að félagið líði ekki framkomu sem feli í sér kynþáttafordóma eða mismunun af nokkru tagi. Ákvörðun dagsins hafi verið tekin í samráði við þjálfara liðsins sem leikur í 4. deild.

Yfirlýsinguna frá Skallagrími í heild má lesa hér að neðan:

Stjórn knattspyrnudeildar Skallagríms tók fyrir úrskurð aganefndar KSÍ vegna máls Atla Steinars Ingasonar leikmanns liðsins, á fundi sínum fyrr í dag.  Eftir að hafa farið yfir úrskurðinn, þar sem Atli er dæmdur í  fimm leikja bann, er það niðurstaða stjórnar að Atli muni ekki spila meira með liði meistaraflokks Skallagríms á þessu keppnistímabili.  Þessi ákvörðun er tekin í samráði við þjálfara liðsins.

Stjórn Knattspyrnudeildar Skallagríms harmar umrætt atvik og ítrekar að félagið mun ekki líða að leikmenn þess viðhafi framkomu sem feli í sér kynþáttafordóma, eða mismunun af nokkru tagi.

 

Með kærri kveðju

f.h. stjórnar

Gísli Einarsson