Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

BA segir upp starfsfólki og endurræður á verri kjörum

17.07.2020 - 21:09
epa08174655 (FILE) - British Airways (BA) aircrafts are seen at Heathrow Airport in London, Britain, 16 January 2020 (reissued 29 January 2020). Media reports on  29 January 2020 state British Airways has suspended all flights to and from mainland China with immediate effect amid the ongoing coronavirus crisis.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Breska flugfélagið British Airways (BA) byrjaði í vikunni að segja upp starfsfólki með það fyrir augum að endurráða hluta þess á verri kjörum.

 

Guardian segir flugfélagið hafa sagt upp þeim starfsmönnum sem unnið hafa hvað lengst fyrir BA og áttu uppsagnirnar sér stað aðeins nokkrum dögum eftir að verkalýðsfélög hófu viðræður við BA um hvernig bjarga megi störfum hjá flugfélaginu.

British Airways gerir ráð fyrir að fækka í 42.000 manna starfsliði sínu um 12.000. Flugfélagið hefur áður varað við því að ólíklegt að sé að það nái sambærilegum umsvifum og það hafði fyrir kórónuveirufaraldurinn fyrr en í fyrsta lagi árið 2023.

Þeim sem fengu uppsagnir nú í vikunni stendur nú til boða að fallast annað hvort á uppsögnina eða sækja um sambærilegt starf hjá BA á lægri launum. Að sögn Guardian nema nýju launin um 80% af núverandi grunnlaunum. 

Starfsfólk er í dag á mismunandi kjarasamningum og eru þeir sem fljúga langar flugleiðir þannig á öðrum samningi en þeir sem fljúga styttri leiðir. Þriðji hópurinn flýgur svo báðar gerðir flugleiða og er það þessi samningur sem BA vill koma öllum sínum flugliðum á.

Guardian segir að í smáa letrinu fyrir nýja samninginn sé hins vegar að finna skilgreiningu á að laun þeirra sem starfað hafa lengst hjá BA verði fryst varanlega án tilltils til verðbólgu, auk þess sem hægt verði að lækka þá í tign við endurráðninguna og það feli í sér 10% launalækkun til viðbótar.

Einnig standi þá til að hætta með öll núverandi hlunnindi, auk þess sem mánaðarlangt launalaust leyfi verði gert að  skyldu og það jafngildi 8% launalækkun.