Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Arion banki skýtur ákvörðun FME til dómstóla

17.07.2020 - 16:42
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að sekta Arion banka um 87,7 milljónir króna á grundvelli þess að bankinn hafi ekki birt innherjaupplýsingar nægjanlega tímalega. Arion banki hyggst höfða mál til ógildingar ákvörðunarinnar.

Málið snýst um að snemma í september í fyrra tilkynnti bankinn fjármálaeftirlitinu að innan bankans væru til staðar innherjaupplýsingar og að bankinn myndi nýta heimild í lögum til að fresta birtingu þeirra.

„Upplýsingarnar sneru að skipulagsbreytingum innan bankans og þá einkum fjárhagslegum áhrifum þeirra. Eitt af skilyrðum frestunar er að bankinn geti tryggt trúnað um innherjaupplýsingarnar.“ Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Arion banka í dag.

Mannlíf fjallaði fyrst um uppsagnir opinberlega

Þann 22. september 2019 birtist umfjöllun á vefmiðlinum mannlif.is þar sem fullyrt var að „umtalsverðar skipulagsbreytingar“ stæðu fyrir dyrum hjá Arion banka. Áttatíu starfsmönnum yrði sagt upp fyrir októberbyrjun og að það væri aðeins fyrsta skrefið í umræddum skipulagsbreytingum.

Í yfirlýsingu bankans segir: „Bar bankanum á þeim tímapunkti að meta hvort um brot á trúnaði væri að ræða. Þar sem umfjöllun vefmiðilsins hafði að geyma veigamikið misræmi frá þeim upplýsingum sem bankinn bjó yfir og þar var ekki að finna upplýsingar um fjárhagsleg áhrif aðgerðanna var það mat bankans að enn ríkti trúnaður um fyrirhugaðar aðgerðir. Taldi bankinn að umfjöllun vefmiðilsins fæli í sér getgátur byggðar á þegar birtum upplýsingum en haustið 2019 hafði ítrekað birst umfjöllun í fjölmiðlum um að vænta mætti breytinga og hagræðingar í rekstri bankans. Af þessu leiddi að skilyrði fyrir frestun á birtingu innherjaupplýsinga voru enn uppfyllt að mati bankans.“

Fjármálaeftirlitið sé ósammála skilngi Arion banka og sektar því bankann á grundvelli þess að bankinn hafi ekki birt innherjaupplýsingar nægjanlega tímalega.

Ekki reynt á sambærilegt álitaefni fyrir dómstólum fyrr

Fjármálaeftirlitið bauð Arion banka að gera sátt í málinu sem bankinn hafnaði þar sem hann telur sig hafa farið að lögum.

„Arion banki höfðar sem fyrr mál til ógildingar á ákvörðun FME en heimildir útgefanda til frestunar á birtingu innherjaupplýsinga eru matskennt lögfræðilegt álitaefni sem ekki hefur áður reynt á fyrir íslenskum dómstólum,“ segir í yfirlýsingunni.